136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[11:35]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil sérstaklega óska nýjum hæstv. dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, til hamingju með jómfrúrræðuna. Það er gaman að hlusta á nýjan ráðherra koma hingað inn með mál af þessu tagi og það er líka svolítið sérstakt að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum og ríkisstjórnarflokkunum í því efni af því að maður hefur á tilfinningunni að þetta sé einhver keppni um hver pissi lengst eða hver ljósriti hraðast. En það er alveg ljóst að í þeirri keppni hafa framsóknarmenn vinninginn þar sem við komum með okkar mál talsvert á undan bæði Sjálfstæðisflokknum og ríkisstjórninni og þessi mál eru rædd hér öll þrjú saman. [Kliður í þingsal.] Á þinginu hefur það komið fram að ríkisstjórnin hefur einungis u.þ.b. 80 daga til að taka á mikilvægum málum og í 3. gr. frumvarpsins kemur fram að lögin öðlist þegar gildi. Þegar málið hefur farið í gegnum þingið og verið afgreitt, og það verður vonandi sem fyrst, þá öðlast lögin strax gildi. Ég vil gjarnan fá að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra Rögnu Árnadóttur út í þetta.

Segjum sem svo að lögin taki gildi eftir tvær vikur, við skulum gefa okkur að við þurfum þann tíma í málið. Getur þá fólk sem er í miklum greiðsluerfiðleikum farið strax daginn eftir á Ráðagjafarstofu heimilanna og fengið aðstoð eftir þeim reglum sem gilda í frumvarpinu? Verður kerfið alveg tilbúið til þess að taka við hópnum, af því að það kemur skýrt fram í frumvarpinu eða í greinargerð frumvarpsins og umsögn um fjárhagslegar afleiðingar þess að þetta gæti verið svolítið stór hópur?