136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[11:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hæstv. dómsmálaráðherra skynjar stöðuna, og veit að það er mikið álag á Ráðgjafarstofu heimilanna. Miðað við svör hæstv. ráðherra er ég nokkuð bjartsýn á að þetta muni ganga vel. Það kemur fram í fjárhagsumsögninni að ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 núna en miðað við ágæt svör hæstv. dómsmálaráðherra á ég von á því að það verði ekki vandamál og það kemur líka fram að það á að opna heimild fyrir Ráðgjafarstofu heimilanna til að ráða a.m.k. einn starfsmann og jafnvel þrjá ef stór hluti landsmanna þarf á þessu úrræði að halda.

Ég vil undirstrika að við framsóknarmenn höfum haft miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem er í samfélaginu og þess vegna lögðum við fram frumvarp okkar um greiðsluaðlögun. Ég fagna því að ríkisstjórnin er komin fram með svipað mál og vænti þess að það skapist mikil samstaða í þinginu um að klára þetta mál — hvernig sem það mun líta út að lokum — fljótt og vel (Forseti hringir.) og í mikilli samstöðu.