136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:04]
Horfa

Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Engin mannfyrirlitning felst í því að hafa skoðun á því hvernig standa beri að réttarfari í landinu og engin mannfyrirlitning birtist í afstöðu réttarfarsnefndar þegar hún telur að nauðsynlegt sé að hafa þessi ákvæði skýr og ótvíræð og varar við því að búin séu til einhver grá svæði. Að kalla það mannfyrirlitningu sýnir hvað þingmaðurinn er langt leiddur í tali sínu á stjórnmálavettvangi og ruglar saman öllum hugtökum sem nota ber þegar talað er um mál af þessu tagi. Hér er um úrlausnarefni að ræða sem blasir við löggjafanum. Þingnefndir eiga eftir að fara yfir þetta og kalla fyrir sig sérfræðinga og fá þá rök fyrir því hvort skynsamlegt sé að fara þá leið sem hæstv. dómsmálaráðherra leggur til í frumvarpi sínu eða jafnvel einhverja enn aðra, þegar menn fara að skoða málið.