136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:09]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt er þó ánægjulegt við þessa umræðu, að allir eru einhuga um að sett skuli lög um greiðsluaðlögun, þ.e. að rýmka til og auka rétt eða möguleika skuldara á því að aðlaga greiðsluhæfni sína þeim skuldum sem á þeim hvíla. Ljóst er að fjármála- og greiðslukerfið hrundi með tilheyrandi afleiðingum fyrir fjölda fólks.

Hins vegar, burt séð frá því hvernig þetta kom allt til, er grundvallarmunur á þessum tveimur málum. Annars vegar er um að ræða að fleiri einstaklingar geti leitað þessa úrræðis, miðað við frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra, og fleiri tegundir af kröfum, þar af veðkröfur, komi til skoðunar í þessu samhengi. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Björn Bjarnason, þá væntanlega sem fulltrúa sjálfstæðismanna í umræðunni: Vilja þeir að færri eigi kost á þessari leið en fleiri? (Forseti hringir.) Því það er eini munurinn á þessum tveimur málum og (Forseti hringir.) í því felst ágreiningurinn.