136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:11]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að Samfylkingin vildi rýmka gildissvið þessa möguleika, það er rétt hjá honum. Hann vildi að fleiri ættu þess kost að fara þessa leið og Samfylkingin vill að fleiri kröfur falli þarna undir, þannig að þetta er rétt hjá hv. þingmanni og ég get tekið undir það sem fram kom í máli hans og það er þetta grundvallaratriði. En eftir stendur hvort það er tillaga sjálfstæðismanna og hv. þingmanna sem flytja sitt mál að þrengja þann möguleika miðað við það sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagt og gert grein fyrir að gildissviðið verði víkkað verulega út. Vill Sjálfstæðisflokkurinn þrengja þetta úrræði miðað við færri einstaklinga og færri kröfur? Ég vil líka nefna það, af því að hv. þingmaður vísaði til umsagnar fjármálaráðuneytisins, að hefði hann lesið örlítið lengra í umsögninni, ekki valda kafla, þá kemur þar fram að ljóst er að þetta mun hafa veruleg áhrif eftir því hversu margir nýta þessa lausn.