136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:27]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að óska nýrri ríkisstjórn til hamingju og óska henni alls velfarnaðar í erfiðu verki sem hennar bíður — afar erfiðu verki — og veitir ekki af góðum óskum.

Ég verð enn fremur að óska fráfarandi ráðherrum í fyrri ríkisstjórn velfarnaðar með þeirri ósk að þeir taki höndum saman með núverandi stjórn til að vinna okkur sameiginlega út úr þeim mikla vanda sem við eigum við að glíma. Sérstakar hamingjuóskir eru til hæstv. dómsmálaráðherra fyrir afar skýra og skilmerkilega framsöguræðu og yfirvegun í andsvörum sem ég hygg að þingmenn gætu haft sér til fyrirmyndar.

Hér er mælt fyrir um afar mikilvægt úrræði sem er mjög brýnt að nái skjótt fram að ganga. Efnahagshrunið kallar á það og það kallar á samstöðu. Það kallar ekki á þá flokkadrætti og tog sem hér hefur átt sér stað. Það kallar á að menn sameinist um það markmið og þann augljósa tilgang sem ég held að allir þeir aðilar sem standa að þessum þremur frumvörpum hafi. Við skulum einbeita okkur að því. Við skulum einbeita okkur að því að leysa neyð heimilanna í landinu og forðast flokkadrætti. Skiljum hismið frá kjarnanum. Ræðum um aðalatriðið. Gleymum okkur ekki í atriðum sem hjálpa ekki fólkinu í landinu. Munum það.

Þjóðinni blæðir í dag og við ættum því fyrst og fremst að ná samstöðu um virk baráttutæki og úrræði til að koma á móts við hana á miklum erfiðleikatímum þar sem 13.000 manns eru atvinnulausir og margir standa frammi fyrir því að eiga jafnvel ekki fyrir nauðþurftum. Þar eigum við að einbeita hugsun okkar, ekki að því hver á hvað og hvað er hvurs í titlatogi. Það er býsna dapurlegt og nöturlegt að hlusta á ræður sem ganga í þá veru þegar eldar brenna á heimilunum. Þessir einstaklingar eiga í mjög verulegum fjárhagsvandræðum. Mér hefur stundum fundist skorta skilning, skorta veruleikahugsun í umræðum hér á þingi eftir að ný ríkisstjórn tók við og reyndar áður en hin gamla lét af völdum, að menn skynji ekki ástandið úti í þjóðfélaginu, að menn hugsa ef til vill meira um kosningar en þjóðina. Komum okkur út úr þessari hugsun. Tökum höndum saman og deilum ekki um atriði sem eru smávægileg heldur deilum þá um það sem mikilvægast er að ná fram að ganga þjóðinni til heilla.

Ég ítreka það að á bak við þessi þrjú frumvörp sem hér liggja frammi liggur sameiginlegur tilgangur, sameiginleg hugsun, sameiginlegur vilji til þess að aðstoða einstaklinga, almenning og heimilin í landinu. Mér er slétt sama hvaðan gott kemur ef það gagnast almenningi og einstaklingum. Og mér er slétt sama hver eignar sér heiðurinn af því. Mér er slétt sama bara ef við náum árangri. Um það snýst þetta mál.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir og flutt er af hálfu ríkisstjórnarinnar er faglega unnið. Það er faglega unnið eins og vænta mátti af hæstv. ráðherra. Það er skilmerkilega sett fram. Sé eitthvað gott að finna í hinum frumvörpunum sem megi sameina eða aðlaga er það auðvitað verkefni allsherjarnefndar. Ég hygg að hæstv. ráðherra sé líka slétt sama hvaðan gott kemur.

Ég treysti því og skora á nefndarmenn hv. í allsherjarnefnd að vinna hratt og örugglega að þessu máli og ýta til hliðar flokkadráttum, hugsanlega persónulegum metnaði og öllu öðru sem kann að leggja steina í götu þess að frumvarpið verði afgreitt eins hratt og hægt er. Það er beðið eftir þessu. Það er beðið eftir þessum úrræðum og þau munu virka.

Við verðum líka í þjóðfélaginu í dag að temja okkur nýja hugsun í þeim vanda sem við blasir. Við erum að takast á við gjörólík verkefni. Við erum að takast á við efnahagshrun sem þjóðin hefur ekki upplifað og við verðum að ýta burtu gamalli, hefðbundinni hugsun. Við verðum að taka upp öll þau tæki sem við getum sem gagnast geta einstaklingum og heimilum. Mér er nánast slétt sama um hver þau tæki eru svo fremi að þau virki til hagsbóta almenningi og svo fremi að þau gangi ekki gegn stjórnarskránni. Ég er jafnvel til í að fara inn á gráa svæðið þar ef það gagnast almenningi en ekki brjóta gegn henni.

Svo að lokum eitt í viðbót, herra forseti, til umhugsunar fyrir allsherjarnefnd og fyrir ríkisstjórnina og fyrir okkur þingmenn, að við skoðum til hlítar hvernig við getum hjálpað bændum og hvort hugsanlegt sé að aðlaga þetta frumvarp að hagsmunum bænda. Bændur eiga sín heimili til sveita og eru með atvinnurekstur samhliða því og þeir standa allt of margir afar illa. Ég hef sagt það og get sagt það aftur: Við megum ekki missa eitt einasta bú úr rekstri. Þangað sækjum við styrk endurreisnarinnar og í sjávarútveginn. Gerum okkur það ljóst. Það er einn fjórði kúabænda í alvarlegum erfiðleikum, aðrir í erfiðleikum, og sauðfjárbúskapurinn stendur eins og allir vita einkar illa. Ég hefði kosið það án þess þó að það mundi tefja þetta frumvarp, það gæti þá komið fram í nýju frumvarpi — ef menn sjá leiðir í allsherjarnefnd til að koma á móts við þarfir bænda sem margir eru að komast í greiðsluþrot, ekki bara út af skuldum heldur verulega hækkuðum aðföngum, áburður hefur hækkað um tugi prósenta — að allsherjarnefnd hugleiði hagsmuni þeirra og hagsmuni okkar að halda öllum býlum í búrekstri og jafnvel að stofna til fleiri.