136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:51]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var einmitt að tala um að þetta ætti ekki einungis að ná til bænda heldur til allra, þetta væri spurning um hvernig við skilgreindum þann atvinnurekstur sem ætti að færa undir. Ég talaði meira að segja um að þetta væri spurning um hvort taka ætti tillit til stærðar viðkomandi fyrirtækis, t.d. hvað varðar starfsmannafjölda, veltu o.s.frv., sem eru þær viðmiðanir sem við getum haft. Ég talaði því ekki um að skilja á milli starfsgreina heldur væri miðað við að ákvæðið væri sem víðtækast og fleiri gætu leitað eftir þessu en t.d. því sem er í löggjöf hinna Norðurlandanna varðandi greiðsluaðlögun. Það vil ég leggja áherslu á. Hv. þm. Pétur H. Blöndal og ég erum því sammála um það með hvaða hætti og hvernig beri að vinna úr þessu.

Varðandi skjaldarmerkjafræði Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, um það hvað er hvers og hvurs er hvað, þá skal ég ekki draga neitt í efa sem hv. þm. Pétur H. Blöndal segir í þeim efnum, að málið hafi legið fyrir eins og hann segir og hægt hefði verið að taka það upp með þeim hætti. Í mínum huga skiptir þetta sáralitlu máli, við erum fulltrúar löggjafarvalds til að vinna úr því sem fyrir okkur liggur og ber að gera það og eigum að sjálfsögðu ekki að vera í sandkassaleik. Það er dálítið sérstakt að þegar ég færi fram sjónarmið varðandi frumvörpin sem fyrir liggja þá skuli vera komið í andsvör við mig út af því hvað gerðist í síðustu ríkisstjórn, sem mér kemur ekkert við og hafði hina megnustu skömm á af því að hún kom ekki málum í framkvæmd og ég var í stjórnarandstöðu allan tímann. Eðlilegra hefði verið að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði farið í andsvör varðandi þetta atriði við hæstv. dómsmálaráðherra en ekki við mig sem var stjórnarandstæðingur í síðustu ríkisstjórn.