136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:48]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Jú, ég svaraði þessu af þeirri gæft sem ég yfirleitt viðhef þegar ég svara hv. þm. Pétri Blöndal. Ég tel að vönduð umfjöllun um málið, þar sem sagan á að eiga sinn þátt, hjálpi þingmönnum til þess að samþykkja frumvarpið, til þess að breyta því í það horf sem best er fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Ég held að sú sögulega yfirsýn sem ég hef reynt að veita hjálpi málinu betur en sú punktsaga sem hv. þm Björn Bjarnason bauð upp á hér fyrr í dag vegna þess að niðurstöðurnar úr minni sögulegu smáathugun eru mjög skýrar. Þær eru þær að bráðavandi fólks frá 1993 til ársins 2009 — menn hafa ekki hér á þinginu getað brugðist við honum með þessum hætti vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið í alla sína tíð og er í enn, sem er fullkomlega stórkostlegt, hefur staðið á móti málinu. Og það er hans að skýra það. Það er ekki mitt. Ég get komið með skýringar eins og fræðimenn gera. Ég get komið með tilgátur, skýringartilgátur. En það er hans og þeirra sjálfstæðismanna að svara því hvers vegna þeir hafa gert það.

Hverju reiddust goðin árið 1993, 1995 og á þeim tíma fram að frumvörpum Jóhönnu Sigurðardóttur, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2006? Af hverju hafa sjálfstæðismenn staðið á móti málinu í tíð síðustu ríkisstjórnar og af hverju leika þeir þetta fáránlega leikrit hér til þess að tefja málið og afgreiðslu þess og auka þann bráðavanda sem hv. þm. Pétur Blöndal og ég höfum jafnmiklar áhyggjur af?