136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er afar fróðlegt að heyra hvað hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur finnst vera við hæfi hér í umræðum á þinginu og kannski er þingheimur almennt á því að ekki sé hollt fyrir mál að rifja upp sögu máls eða draga ályktanir af afstöðu einstakra flokka, samtaka eða þingmanna til mála. Ég tel nú samt að það sé svo og veit ekki betur en að það hafi verið stundað hér í þessum sal allt frá því hann varð til og á því þingi sem stóð hér uppi í brekkunni áður en þessi salur varð til. Ég veit ekki betur en það sé sá háttur sem þingmenn hafa lengi haft að virða fyrir sér sögu mála, draga af henni ályktanir á sama hátt og þeir skoða málið sjálft efnislega og bera það saman við samtíma sinn.

Um frumvarp sjálfstæðismanna er ósköp einfaldlega það að segja, sem hér hefur áður verið sagt — hæstv. dómsmálaráðherra hefur rakið í hverju það er frábrugðið því stjórnarfrumvarpi sem hér liggur fyrir frá þeim ráðherra sem á sinn hefðarrétt að flytja frumvarp af þessu tagi án þess að réttur sjálfstæðismanna eða annarra þingmanna sé að nokkru leyti vanvirtur.

Ég styð ósköp einfaldlega frumvarp dómsmálaráðherra og tel til bóta þann viðauka sem hún hefur gert á þeim drögum sem hv. þm. Björn Bjarnason afritaði í ráðuneytinu og afhenti síðan þingflokki Sjálfstæðisflokksins til flutnings hér. Ég tel að sú vinna sem hefur farið fram í ráðuneytinu eftir að Björn Bjarnason hvarf þaðan sé til stórra bóta. Ég þarf ekkert að rökstyðja það frekar, það hefur verið gert hér fyrr í dag.

Ég held að sagan hjálpi okkur og ég held kannski að þetta andsvar og önnur viðbrögð hér stafi af því að menn eiga svolítið erfitt með að sætta sig við að í 15–16 ár hafi Sjálfstæðisflokkurinn staðið gegn félagshyggjuflokkum, (Forseti hringir.) jafnaðarmönnum, verkalýðshreyfingu og neytendasamtökum, staðið gegn því að þetta mál kæmist í gagnið. (Forseti hringir.)