136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Já, það er ágætt að hv. þm. Björn Bjarnason, fráfarandi dómsmálaráðherra, viðurkenni að það hafi engar rannsóknir farið fram á stöðu heimilanna og stöðu skuldara hér á landi. Það er kannski þess vegna sem þörf var á nýjum vöndum í Stjórnarráðinu. Vegna þess að það er ekki aðeins að það hafi ekki hafist formleg rannsókn á aðdraganda bankahrunsins fyrr en síðastliðinn sunnudag þegar til starfa tók loksins sérstakur saksóknari í þeim efnum heldur er líka til þess að líta að rannsóknarnefnd þingsins tók ekki til starfa fyrr en skömmu fyrir áramót. Og jafnvel þótt rannsóknir á stöðu skuldara hefðu farið fram einhvern tímann á síðasta ári þá er alveg ljóst að eftir bankahrunið hefur veruleikinn gjörbreyst. Við vitum hins vegar og öll þjóðin, held ég, að Sjálfstæðisflokkurinn er algerlega úr tengslum við það sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu undanfarna mánuði, hann hrærist bara í einhverjum allt öðrum veruleika. Það er ein af ástæðunum fyrir því að hann er ekki lengur í Stjórnarráðinu sem betur fer. Fjórði dagurinn. Til hamingju Ísland með það, til hamingju Ísland. (Gripið fram í.)

Ég mótmæli því að ég hafi verið með einhver yfirboð gagnvart bændum. Ég segi það einlæglega að vandi bænda í þessu landi er mikill og hann er töluvert annars eðlis en vandi annarra vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn skerti búvörusamningana. Hún tók launaliðinn, vísitöluna og launalið bænda úr sambandi, (Gripið fram í.) þannig að það er komið upp misgengi milli launa og lána hjá bændum sem er ekki það (Forseti hringir.) sama og annars staðar í samfélaginu. En haldi menn í Sjálfstæðisflokknum eða annars staðar að fjármagnseigendur eigi (Forseti hringir.) alltaf einir að vera með belti og axlabönd þá vona ég að sá tími sé (Forseti hringir.) liðinn.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)