136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:35]
Horfa

Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér áðan var beint fyrirspurnum til hv. þingmanns og þá sagði hv. þingmaður að hann ætlaði ekki að fara út í almennar stjórnmálaumræður. Svo kem ég upp og ræði um þrönga þætti í þessu frumvarpi og bendi á að réttarfarsnefnd sé með ábendingar varðandi breytingar á ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna um að ekki hefði verið rannsakað nægilega vel við gerð þessara frumvarpa til þessa hvaða áhrif breytingarnar hefðu og þá fer hv. þingmaður að tala um einhverjar rannsóknarnefndir eða sérstakan saksóknara. Ég bara spyr: Hver er hér að drepa málum á dreif með einhverju tali sem skiptir engu máli í þessu sambandi?

Það sem við erum að ræða hér og hv. þingmaður spurði mig um var hvar ég teldi mörkin eiga að vera varðandi gildissvið frumvarpsins. Ég varaði við því að menn væru að fara inn á grátt svæði og væru síðan með yfirboð hvað þá heldur almennar órökstuddar yfirlýsingar og algerlega út í bláinn eins og hv. þingmaður flutti hér. Sem er náttúrlega til marks um þá vanstillingu sem einkennir þetta stjórnarsamstarf, að ekki sé hægt að ræða frumvörp eins og þessi og tæknileg atriði og bregðast við yfirlýsingum þingmanna án þess að þeir fari út um víðan völl eins og hv. þingmaður gerði og tapi sér alveg hreint og gleymi því um hvað málið snýst. Málið snýst um að hafa öryggi í viðskiptum og að ekki sé, með því að fara inn í gjaldþrotaskiptalögin, verið að raska nauðsynlegum grunni sem þarf að vera fyrir öllum viðskiptum hvað sem líður stundarvanda sem auðvitað kann að leysast fyrr með þessu frumvarpi en ella væri. En standa til frambúðar þær breytingar sem við erum að gera hér?