136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan: Ekki ætla ég að gagnrýna hv. þm. Björn Bjarnason fyrir að hafa beint málinu til réttarfarsnefndar. En sú spurning hlýtur auðvitað að vakna í þessari miklu réttlætingarræðu Sjálfstæðisflokksins: Hvað tafði Sjálfstæðisflokkinn þá, og hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, að gera eitthvað ef hann hafði áhuga á greiðsluaðlögun út af fyrir sig? Þetta mál var lagt fram árum saman án þess að hann sýndi því nokkurn áhuga. Ef hann hafði áhuga á því að þetta mál kæmi fram og hafði svo mikla brennandi réttlætiskennd, hvers vegna beindi hann því þá ekki fyrr til réttarfarsnefndar? Hvers vegna þurfti alla þessa eftirgangsmuni af hálfu þáverandi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og annarra þingmanna Samfylkingarinnar? Hvers vegna þurfti að leita ásjár hjá þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Jóni Sigurðssyni, og hvers vegna var það fyrst þegar hv. þm. Björn Bjarnason stóð frammi fyrir fullfrágengnu frumvarpi frá viðskiptaráðherra sem hann hreyfði sig í þessu máli og beindi því til réttarfarsnefndar? Það er hin stóra spurning sem staðfestir betur en nokkuð annað að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei haft áhuga á þessu máli, aldrei viljað framgang þess en hraktist út í það nauðbeygður og þykist núna ætla að reyna að skreyta sig með þessum stolnu fjöðrum. Í gegnum þann mikla blekkingarleik sjá allir sem vita um forsöguna og þekkja hana.