136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[15:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég man ekki hvort ég var búinn að óska hæstv. ráðherra til hamingju með embættið og jómfrúrræðuna og þetta nýja frumvarp en geri það þá hér með.

Nú upplifir þjóðin það sem kannski var versti kosturinn af öllum, þ.e. að breytingar yrðu á ríkisstjórn og allt sem því fylgir og síðan kosningar í vor. Ég hefði talið að þetta hefði allt mátt bíða í hálft ár eða svo vegna þess að nú tefst allt saman. Það er allt búið að vera í biðstöðu núna í tvær vikur og verður örugglega eitthvað áfram og svo kemur kosningabaráttan og svo koma kosningar. Vonandi verður ekki stjórnarkreppa í kjölfarið en allt þetta tefur nauðsynlegar aðgerðir um fjórar til átta vikur, jafnvel þrjá mánuði, eitthvað svoleiðis. Það er ekki það sem íslensk heimili og íslensk atvinnufyrirtæki þurftu á að halda í núverandi stöðu þannig að þetta er eiginlega það versta sem gat komið upp, það sem við upplifum núna. Þeim mun mikilvægara er að vinna hratt þau mál sem koma fram og hér er eitt af þeim. Ég skil bara ekki af hverju menn tóku ekki það frumvarp sem var tilbúið og ræddu það að senda það í nefndina og gerðu á því þessar fjórar breytingar eða þrjár sem um er að ræða. Það eru í rauninni þrjár breytingar á frumvarpinu og ein breyting á greinargerðinni sem getur verið dálítið alvarleg sem ég ætla rétt aðeins að koma inn á.

Hér hefur nokkuð verið rætt um höfundarrétt og hvernig það mál stendur allt saman. Allt þetta ber nú dálítið mikið vott um það sem menn hafa kallað sandkassaleik og ég hef gagnrýnt mjög oft og er mikið á móti. Þau frumvörp sem við ræðum hér í dag taka öll á mjög erfiðri stöðu sem þarf að vinna hratt að. Fólk er að kikna undan því sem er að gerast. Öll þessi frestun á málum er mjög dapurleg og er nú bara afleiðingin af því ofbeldi sem Alþingi varð fyrir og leiddi til falls ríkisstjórnarinnar fyrri.

Frumvarpið gengur út á það sem ég hef margoft sagt, að það er mikilvægara að beygja fólk og brjóta það ekki, þ.e. að reyna að fá skuldarann til að greiða eins mikið og hann mögulega getur en ekki þannig að hann verði gjaldþrota og gefist upp. Þetta frumvarp er þar með tengt því frumvarpi sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur flutt um ábyrgðir sem er enn þá verra dæmi og hefur því miður tíðkast á íslenskum lánamarkaði, að fólk væri að skrifa upp á fyrir vini og vandamenn.

En ég ætla að fara í gegnum þessar þrjár eða fjórar breytingar sem eru á frumvarpinu. Það er í fyrsta lagi nafnið, „skuldaaðlögun“ og „greiðsluaðlögun“, það skiptir náttúrlega engu máli, ekki í mínum huga. Ég get ekki séð að það skipti nokkurs staðar máli en það hefði mátt fara í gegnum það í nefndinni ef það frumvarp hefði verið tekið fyrir og afgreitt. Síðan er spurningin um það sem bætist við frumvarpið, þar stendur, með leyfi forseta:

„Lögin ná ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra ...“

Svona stóð þetta í lögunum og svo er bætt við í frumvarpi ríkisstjórnarinnar:

„... nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.“

Ég fullyrði af minni reynslu og þekkingu á þessum málum að þetta er nánast tómt mengi. Það fólk sem hefur verið í atvinnurekstri, hvort sem það eru trillukarlar, iðnaðarmenn eða bændur eða hverjir sem er og hafa hætt þeim atvinnurekstri og eru í vandræðum er yfirleitt út af atvinnurekstrinum. Það er þá oft um að ræða nokkuð stórar tölur.

Annaðhvort tekur nefndin sig til og reynir að víkka þetta út eða sleppir því. Ég er ekki viss um að það gangi vegna þess að þetta er mjög erfitt viðureignar. En það sem þarf alla vega að undanskilja — og það er það sem ég vil benda á sem hættu við frumvarp ríkisstjórnarinnar en þar hefur dottið út þáttur, hvort sem það er með vilja eða óvart. Í greinargerð í frumvarpi hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á síðu 11 í því frumvarpi sem hv. sjálfstæðisþingmenn flytja. Þar segir með leyfi forseta:

„Hér er litið til þeirrar ríku lagaábyrgðar sem hvílir á þeim sem stunda atvinnurekstur, meðal annars varðandi skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna, en ekki þykir koma til álita að draga úr henni með reglum um skuldaaðlögun, þar sem lánardrottnum er ekki ætlað að eiga atkvæði um hvort veitt verði eftirgjöf skulda.“

Hér er um að ræða það sem kallað er vörsluskattar eða rimlagjöld. Það er alveg fráleitt, finnst mér, að fella það niður. Þetta eru gjöld sem viðkomandi skuldar og hefur sjálfur tekið að láni hjá ríkinu. Hann innheimtir þetta fyrir hönd ríkisins og stingur í eigin vasa og mér finnst ekki koma til greina að slík gjöld verði einhvern veginn undanþegin gjaldþrotaskiptum.

Ef menn ætla að víkka þetta út, sem ég tel reyndar ástæðu til að skoða af því að það er mikilvægara að fyrirtækin starfi áfram, jafnvel með nýja eigendur eða að menn borgi eins og þeir geta af skuldunum í staðinn fyrir að fara í þrot, þurfa menn a.m.k. að undanskilja þetta. Það er vandi hvernig þetta er gert í hv. nefnd sem fær frumvarpið til meðhöndlunar en ég bendi á það að í stjórnarfrumvarpinu fellur þessi grein niður. Þar sem hún fellur niður gæti það sem lagatúlkun litið þannig á að þessi gjöld eigi að fara í þann farveg sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þetta er mjög alvarleg breyting á frumvarpinu í greinargerðinni. Menn gætu notað til lagatúlkunar að vilji löggjafans eða þess sem lagði frumvarpið fram hafi verið að rimlagjöldin svokölluðu verði meðhöndluð eins og venjulegar skuldir hjá fyrirtæki. Ég vil ekki fallast á það.

Þetta eru sem sagt breytingarnar sem vantar inn í stjórnarfrumvarpið. Það var nafnabreytingin „skuldaaðlögun“ í „greiðsluaðlögun“, síðan var það með atvinnureksturinn og svo var það fjórða breytingin, ákvæði til bráðabirgða. Ef menn lesa grannt, herra forseti, stendur þar, með leyfi forseta:

„Þegar um er að ræða kröfur í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins, sem tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi sem ætlað er til eigin nota skuldara, má í nauðasamningi til greiðsluaðlögunar kveða á um að kröfurnar verði greiddar með breyttum skilmálum að því leyti sem andvirði eignarinnar dugir til að fullnægja þeim og tryggingarrétturinn fellur ekki niður vegna nauðasamningsins. Er þá m.a. heimilt að kveða á um fleiri gjalddaga, greiðslufrest um tiltekinn tíma, nýjan lánstíma og skuldbreytingu vanskila.“

Þetta er engin breyting frá því sem er í dag vegna þess að í lögum um húsnæðismál, 47. gr. laga nr. 44/1998, segir:

„Stjórn Íbúðalánasjóðs er heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar.“

Þessar kröfur falla eiginlega niður og í reglugerð sem sett er á grundvelli þessara laga segir að það sem tapast, þegar veðkrafa tapast, skuli ekki bera vexti eða verðtryggingu frá þeim degi og að heimilt sé að borga inn á það og þá lækki skuldin um tvöfalda þá upphæð sem greidd er inn.

Það er í rauninni búið að taka þetta inn í núverandi lög fyrir nokkuð löngu síðan, þ.e. 1998. Þetta varðar Íbúðalánasjóð. Svo er ríkisstjórnin búin að senda tilmæli og ég árétta hér frétt frá 22. október á www.eyjan.is:

„Ríkisstjórnin áréttar tilmæli sín til banka um frystingu erlendra lána.“

Síðan hefur ríkisstjórnin líka áréttað að ríkisbankarnir skuli nota sömu reglur og Íbúðalánasjóður varðandi íbúðalán eða lán með veði í íbúðum. Í rauninni er þetta ákvæði bara nákvæmlega eins og er í dag, ég sé ekki stórkostlega breytingu með þessu ákvæði. Það þarf þá að sýna mér það.

Síðan stendur:

„Sá hluti skuldarinnar sem fellur utan andvirðis eignarinnar [þ.e. við nauðungarsölu eða mat á nauðungarsölu] telst til samningskrafna.“

Það eru þær kröfur sem menn mega þá fjalla um eins og aðrar skuldir viðkomandi. Þeir komast þá inn í greiðsluaðlögunina og greiðslujöfnunina. Ég sé ekki að þetta ákvæði breyti neitt voðalega miklu í núverandi stöðu. Það getur verið að einhver geti bent mér á að þetta breyti eitthvað voðalega miklu.

Bæði þessi ákvæði sem eru breyting frá frumvarpi hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, eru í rauninni tómt mengi. Ég sé ekki betur.

Svo er eitt alveg ótrúlegt ákvæði í lok þessa ákvæðis til bráðabirgða sem ég hef oft gagnrýnt:

„Ákvæði þetta skal endurskoða fyrir 1. janúar 2011.“

Ætlar þetta þing að fara að setja næsta þingi fyrir hvaða lög á að setja? Og hvað gerist ef það gerir það ekki? Hvað gerist ef þingið árið 2011 gleymir þessu eða neitar að gera þetta eða gerir ekkert í málinu? Hver er réttarstaðan? Gildir þetta ákvæði áfram eða fellur það niður? Það stendur ekkert um það. Svona finnst mér að eigi ekki að standa í lögum, Alþingi á ekki að skuldbinda næsta þing til að gera eitt eða annað. Hver einasti þingmaður og ráðherra hafa rétt til þess að flytja frumvörp á Alþingi og þeir geta bara bundið band um puttann á sér til að minna sig á að fyrir janúar 2011 eigi að gera eitthvað í málunum. Þá geta þeir flutt um þetta frumvarp, hver einn og einasti þingmaður. Það dugar einn. Svona ákvæði finnst mér skrýtið.

Það eru sem sagt þrjú ákvæði um breytingar, þ.e. þetta er víkkað út á atvinnustarfsemi, fínt, það er víkkað út á lán Íbúðalánasjóðs og ríkisbankanna, ég færi rök fyrir að hvort tveggja er uppfyllt í dag, og svo er það nafnið „greiðsluaðlögun“ sem skiptir held ég engu máli þótt verði „skuldaaðlögun“. Það er gott að laga greiðslurnar að skuldinni eða greiðsluna að skuldunum. Ég held að þetta sé frekar skuldaaðlögun ef eitthvað er því að þá eru skuldirnar lagaðar að greiðslunum en ekki öfugt. Maður er með ákveðnar tekjur og það á sem sagt að laga skuldirnar að þeim tekjum sem maður hefur.

Svo er það alvarlegasta, þ.e. þessi fasti liður í greinargerðinni sem ég held að hafi verið mistök, að rimlagjöldin falli nú ekki undir eins í lög.

Þetta mál, herra forseti, er í rauninni mjög alvarlegt mál. Við skulum hugsa okkur tvo menn eða tvær konur, Jónu og Gunnu. Önnur stendur alltaf í skilum og pínir sig alveg undir drep, vinnur dag og nótt, eyðir engu, fer aldrei í ferðalög og ekki neitt og stendur sína plikt og borgar sínar skuldir hvað sem það kostar. Hvort sem eignin lækkaði í verði eða gengið hækkaði — hvað gerist? Hún skal alltaf borga sínar skuldir. Hin konan, Gunna, tekur lífinu létt, hún borgar ekkert sérstakt, hún fer í ferðalög og kaupir sér flatskjá og kaupir sér bíl, hún gerir þetta og hitt, er sem sagt óábyrg í fjármálum. Og hvað gerist? Henni er hjálpað og hinni, sem píndi sig í að borga og standa í skilum, er í rauninni refsað. Þetta er vandinn við þessa greiðsluaðlögun; við þetta mál. Þess vegna þurfa menn að stíga mjög varlega til jarðar, herra forseti, þegar þeir fara inn á svona hluti þar sem fólk er mismunandi ráðdeildarsamt. Það er bara þannig.