136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[15:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp fyrst og fremst vegna þess að mér mislíkar nokkuð hvernig hv. þingmaður vék orðum að hæstv. dómsmálaráðherra og gerði því skóna að gagnrýni mín á áhugaleysi hv. þm. Björns Bjarnasonar á þessu máli, sem er algjörlega ljóst vegna þess að hann hefur aldrei haft frumkvæði að því að setja fram frumvarp í þessa veru, megi lesa sem gagnrýni á embættismenn í dómsmálaráðuneytinu. Það er fráleitt og ég vísa því algjörlega á bug. Ég tók þvert á móti fram áðan að það verklag, sem hv. þm. Björn Bjarnason viðhafði eftir að þessu frumvarpi var pínt upp á hann nauðugan viljugan og hann þvingaður til að vinna að því, er ágætt.

Ég held að það hafi verið til bóta að fá réttarfarsnefnd að frumvarpinu. Svo er náttúrlega með ólíkindum að hlusta á þingmenn Sjálfstæðisflokksins klifa á því að þetta frumvarp sé frumvarp Sjálfstæðisflokksins. Þetta frumvarp er unnið að frumkvæði tveggja ráðherra í síðustu ríkisstjórn sem voru ekki sjálfstæðismenn, þ.e. hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra. Eftir að þeir tóku þetta mál upp við hæstv. dómsmálaráðherra féllst hann á að hefja vinnu við málið á vettvangi dómsmálaráðuneytisins. Málið var síðan unnið í réttarfarsnefnd. Er réttarfarsnefnd nefnd í Sjálfstæðisflokknum? Þessi gorgeir sjálfstæðismanna hér og valdhroki er náttúrlega með ólíkindum.

Ef einhver á höfundarrétt á þessu frumvarpi er það dómsmálaráðuneytið sem stofnun og réttarfarsnefnd sem stofnun. Blessunarlega er subbuskapur Sjálfstæðisflokksins í mannaráðningum og meðferð opinbers valds ekki orðinn slíkur að hægt sé að ákveða að heilu stofnanirnar eða sérfræðinganefnd á borð við réttarfarsnefnd séu deildir í Sjálfstæðisflokknum, blessunarlega ekki enn þá.