136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[15:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það var athyglisvert að hv. þm. Árni Páll Árnason skyldi láta fram hjá sér fara tækifæri til að útskýra hvers vegna þingflokkur Samfylkingarinnar lá á þessu máli og samþykkti það ekki (ÁPÁ: Spurningin kom fram þegar ræðutíma var lokið.) af sinni hálfu, en ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þann þátt að sinni.

Ég held að aðalatriðið í þessu máli sé það að fyrir þinginu liggur vönduð vinna sem unnin hefur verið í dómsmálaráðuneytinu í ráðherratíð Björns Bjarnasonar og ber þess merki að réttarfarsnefnd og sérfræðingar dómsmálaráðuneytisins hafa lagt sig fram um að gera sitt besta, gera vel, gera frumvarpið þannig úr garði að það þjóni þeim tilgangi sem það á að þjóna, komi til móts við þá einstaklinga sem á því þurfa að halda og sé jafnframt þannig úr garði gert að það falli að réttarkerfinu, að réttarfarsreglum að öðru leyti og sé þannig framkvæmanlegt þegar á það mun reyna.

Það er eitt að slá fram góðum hugmyndum, lýsa góðum vilja, og annað að búa lagafrumvörp þannig úr garði að þau séu til þess fallin að ná tilgangi sínum og um leið að þau falli að öðrum réttarreglum þannig að ekki verði um árekstra að ræða. Það er akkúrat það sem hefur gerst í þessu máli. Það er rétt sem fram hefur komið hjá ýmsum ræðumönnum hér í dag að hugmyndin um greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun er ekki ný af nálinni. Hún hefur oft komið til umræðu hér á þingi og verið rædd í ýmsum myndum. Staðreyndin er að sú ríkisstjórn sem fór frá völdum um síðustu helgi lét vinna þetta mál fyrir sig, fékk til þess réttarfarsnefnd sem skipuð er helstu sérfræðingum landsins á sviði réttarfars, helstu sérfræðingum á því sviði sem hér er um að ræða. Það er það sem við höfum hér fyrir okkur. Þess vegna bind ég vonir við það að allsherjarnefnd geti unnið hratt í þessu máli, komi því sem fyrst frá sér. Ég held að um það hljóti að vera samstaða.

Auðvitað er áherslumunur annars vegar á því frumvarpi sem lagt er fram af hv. þm. Birni Bjarnasyni og öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og því frumvarpi sem hér er lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Fyrir utan heitið eru eins og hér hefur komið fram í umræðunni tvö atriði frábrugðin og rétt er að þau atriði verði rædd sérstaklega í nefndinni, farið yfir þau, skoðað hvort þau eru þess eðlis að gera þurfi einhverjar breytingar. Jafnframt þarf þá að huga að fleiri þáttum sem komið hafa fram hér við þessa umræðu til að gera þetta frumvarp sem best úr garði. Hins vegar ítreka ég að málið er að meginstofni til þess eðlis að um það á ekki að þurfa að vera sérstakur ágreiningur, og þau atriði sem allsherjarnefnd þarf að fara yfir og ræða eru tiltölulega fá.

Ég legg áherslu á að þótt allir hafi skilning á því að málið þurfi hraða meðferð verði engu að síður lagst vel yfir þessi tiltölulega fáu álitamál, leitað álits sérfræðinga á þeim og vegið og metið hvort þessi tiltölulega fáu álitamál séu þess eðlis að gera beri breytingar á lögunum í þeim anda. Þetta held ég að sé kjarni málsins og þar sem ég ætla ekki að fara nánar út í söguskýringar vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að um þetta mál eigi að geta náðst góð samstaða í allsherjarnefnd og vænti þess af samstarfsmönnum mínum þar, þar á meðal hv. þm. Árna Páli Árnasyni, að við getum átt um þetta góða og vandaða samvinnu.