136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál.

[10:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og fleiri óska nýkjörnum formanni heilbrigðisnefndar til hamingju með viðfangsefnið og óska henni allra heilla í störfum. Ég átti þess kost að sitja borgarafund á Akureyri ásamt hv. þm. Þuríði Backman fyrir rúmum 10 dögum þar sem umræðan laut að niðurskurði í heilbrigðismálum á Akureyri. Þetta var fjölmennur og góður fundur. Á þeim tíma var þessi nýja minnihlutaríkisstjórn í burðarliðnum og hv. þingmaður flutti þar hjartnæma ræðu um þær breytingar sem væru yfirvofandi á því sviði sem þar var um rætt. Miklar væntingar voru gefnar af hálfu þingmanns um að nú mundi allt horfa til betri vegar og þessar vanhugsuðu aðgerðir eins og hún kallaði yrðu efalaust dregnar til baka. Við þessi orð hv. þingmanns kviknaði gleðin í ásjónum margra fundarmanna og lifnaði mjög yfir.

Því er ekkert óeðlilegt að hér sé spurt og krafist svara um efndir á þeim væntingum sem gefnar hafa verið til bæði notenda þessarar þjónustu og þeirra sem þeim tengjast. Það er mjög mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem þarna er uppi, ekki síst í ljósi þess um hvaða málaflokk er að ræða. Ég vil þó undirstrika hér að á Akureyri er þjónusta við geðfatlaða mjög til fyrirmyndar og í því efni eru sóttar fyrirmyndir þangað til annarra staða á landinu.

Ég vil ítreka að krafist er svara og aðgerða af hálfu heilbrigðisyfirvalda í þessu máli og því er mjög eindregin ósk um það að hv. formaður heilbrigðisnefndar gangi í ræðustólinn og gefi skýr svör í þessum efnum. (Forseti hringir.)