136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál.

[10:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska nýkjörnum formanni heilbrigðisnefndar til hamingju með starfið. Þar fer mætur þingmaður og einstaklingur sem ég veit að mun vinna af samviskusemi og elju að þessu mikilvæga starfi.

Hér erum við að ræða ákveðna hluti, í grófum dráttum það að þeir sem stýra þessari stofnun eins og þeir aðilar sem stýra sambærilegum stofnunum eru í því erfiða hlutverki að reyna að finna leiðir til að fá eins mikla þjónustu og unnt er fyrir þá fjármuni sem þeir hafa úr að spila. Sá aðili sem á að fylgjast með að allt sé faglega gert er landlæknir og mér vitanlega hefur hann farið norður til Akureyrar til að skoða þessi mál sérstaklega. Þetta er vegna þess að menn eru að fylgja eftir fjárlögum. Nú liggja hins vegar fyrir yfirlýsingar frá hæstv. heilbrigðisráðherra sem eru mjög afdráttarlausar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt skýrt að hann fari ekki í neinar sparnaðaraðgerðir sem eru umdeildar, engar, þannig að þessu er sjálfhætt eðli málsins samkvæmt. Hann hefur slegið út af borðinu allar þær hugmyndir sem eru sannarlega umdeildar um skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustunni, þær eru upp á 1,3 milljarða kr. og miða að því að fækka opinberum stofnunum, fækka forstjórum og stjórnendum til að halda uppi þjónustustiginu og til að halda störfum heilbrigðisstarfsfólksins. Sömuleiðis hefur hann í því samhengi slegið vörð um þann sérstaka hátt sem er t.d. á St. Jósefsspítala þegar kemur að sérfræðingum og launakjörum þar.

Þetta er nokkuð sem liggur hreint og klárt fyrir. Hér kom formaður heilbrigðisnefndar og lýsti því yfir að þetta væri mjög vanhugsuð leið og enginn sparnaður. Pólitískur vilji liggur fyrir (Forseti hringir.) og þá hlýtur núverandi ríkisstjórn og hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) að leiðbeina þessum stjórnendum um hvernig þeir nái þessu með öðrum hætti.