136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál -- stefna í virkjunarmálum.

[10:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil tjá mig um skoðanir okkar framsóknarmanna, sem er kannski óvænt. Landsvirkjun og dótturfyrirtæki hennar eiga samkvæmt skoðun okkar að vera áfram í eigu ríkisins. Það er á hreinu. Þetta byggist m.a. á því að við höfum skoðað rannsóknir sem hafa verið unnar í öðrum löndum af einkavæðingu orkugeirans. M.a. sýnir reynsla Svía að þegar orkufyrirtæki hafa verið einkavædd hefur það leitt til lakari þjónustu, hærra verðs og síðast en ekki síst minni arðsemi fyrir samfélagið. Við erum því algerlega á móti sölu virkjana. Það er ágætt að koma því á framfæri við hæstv. iðnaðarráðherra hér með.

Við erum hins vegar tilbúin að skoða það að leigja þær. En grunnforsendan fyrir því yrði að vera að stjórnarskrárbreyting yrði gerð þar sem kæmi skýrt fram að auðlindir Íslands utan eignarlanda eru sameign íslensku þjóðarinnar. Þetta er grunnforsenda fyrir því að rætt sé um hvort leigja eigi virkjanir og þá þurfum við líka að horfa til annarra auðlinda. Ef þessi stjórnarskrárbreyting yrði gerð þyrfti í framhaldinu að stofna auðlindasjóð sem margir flokkar hér á þingi hafa rætt um.

Ég held að ég geti tekið undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar um það að orð hv. þm. Birgis Ármannssonar sýna að sjálfstæðismenn hafa lært nákvæmlega ekki neitt af reynslu okkar af því að einkavæða fyrirtæki. (Gripið fram í: Iðnaðarráðherra.)