136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands. Breytingarnar hafa það að markmiði að tryggja að í bankanum sé starfandi fagleg yfirstjórn og þar með ávallt tryggt að faglega sé staðið að ákvarðanatöku við beitingu stjórntækja bankans í peningamálum.

Breytingar samkvæmt frumvarpinu eru í meginatriðum tvær. Annars vegar er lagt til að bankastjórn Seðlabanka Íslands verði aflögð og þar með embætti þeirra þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni. Í stað bankastjórnar verði skipaður einn faglegur seðlabankastjóri sem stýri bankanum. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að sett verði á fót innan bankans sérstök peningastefnunefnd sem hafi það hlutverk að taka ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum.

Ljóst er að traust manna á fjármálakerfi Íslendinga hefur beðið hnekki. Á það jafnt við um fjármálafyrirtækin sem starfað hafa á markaðnum og opinbera aðila sem hlutverk hafa haft við stjórnun og eftirlit með fjármálakerfinu og er Seðlabanki Íslands þar ekki undan skilinn. Gífurlega þjóðhagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að það takist að endurvekja traust á fjármálakerfinu og ber Alþingi og ríkisstjórninni skylda til að gera það sem í hennar valdi stendur til að endurreisa traust og trúverðugleika kerfisins. Þau sjónarmið og sá háttur sem viðhöfð hafa verið við skipan í stöðu bankastjóra Seðlabanka Íslands hafa í gegnum tíðina oft valdið deilum í íslensku samfélagi og verið gagnrýnd harðlega. Hafa ýmsir kvatt sér hljóðs í þeirri umræðu. Hefur gagnrýnin fyrst og fremst beinst að vægi pólitískra sjónarmiða við skipan í embættin en svo virðist sem þau hafi oft og tíðum verið ráðandi með þeim afleiðingum að málefnaleg sjónarmið, svo sem um menntun og hæfni á því sviði sem Seðlabankinn starfar, hafa fengið að víkja.

Þá hefur sú staðreynd að ekki er skylt að auglýsa stöðu seðlabankastjóra oft verið gagnrýnd en sú regla hefur í raun gert mönnum kleift að víkja til hliðar þeim reglum og aðferðafræði sem almennt gilda um skipan embætta á vegum ríkisins.

Ákvarðanir í peningamálum eru fyrst og fremst fagleg viðfangsefni sem krefjast sérfræðiþekkingar í þjóðhags- og peningahagfræði. Um það ætti ekki að þurfa að deila enda er þetta sjónarmið viðurkennt í seðlabönkum um allan heim og kemur gleggst fram í því að í flestum löndum eru menntaðir hagfræðingar í embættum seðlabankastjóra.

Virðulegi forseti. Ég tel ljóst að þörf er á verulegri uppstokkun og endurnýjun í yfirstjórn Seðlabanka Íslands eftir þau áföll sem þjóðarbúið og um leið bankinn hefur orðið fyrir á undanförnum mánuðum. Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru að mati ríkisstjórnarinnar frumforsenda þess að Seðlabanki Íslands geti að nýju áunnið sér það traust sem nauðsynlegt er í því sambandi.

Í frumvarpinu er lagt til að forsætisráðherra skipi seðlabankastjóra til sjö ára í senn að undangenginni auglýsingu. Við skipan í starfið gilda almennar reglur um skipun í embætti hjá hinu opinbera. Þannig ber að skipa þann umsækjanda sem telst hæfastur til að gegna starfinu á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða sem lögð eru til grundvallar en auk þess er gerð krafa um að umsækjendur hafi lokið meistaraprófi í hagfræði og búi yfir víðtækri reynslu og þekkingu í peningamálum. Ber seðlabankastjóri ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum.

Í frumvarpinu er það nýmæli að kveðið er á um að innan Seðlabanka Íslands skuli vera starfrækt sérstök peningastefnunefnd sem fari með ákvörðunarvald um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum en stjórntæki bankans teljast í þessu sambandi vera vaxtaákvarðanir hans, viðskipti við lánastofnanir, ákvarðanir um bindiskyldu og viðskipti á gjaldeyrismarkaði sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á gengi krónunnar. Er mælt fyrir um að þessar ákvarðanir peningastefnunefndar skuli grundvallast á markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum á hverjum tíma.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að í peningastefnunefnd sitji seðlabankastjóri sem jafnframt er formaður, tveir af yfirmönnum bankans á sviði mótunar og framkvæmdar stefnu í peningamálum og tveir sérfræðingar á sviði peningamála sem seðlabankastjóri skipar til þriggja ára í senn að fenginni staðfestingu forsætisráðherra. Þýðingarmikið er talið að fleiri en einn komi að þeim ákvörðunum sem peningastefnunefnd er ætlað að taka, enda fela ákvarðanir í peningamálum oftast í sér ólík sjónarmið um stöðu og þróun mála í hagkerfinu. Eru peningastefnunefndir af þessu tagi því algengar í seðlabönkum annarra landa og hafa það að markmiði að auka gæði ákvarðanatöku við beitingu stjórntækja bankanna í peningamálum. Gert er ráð fyrir að seðlabankastjóri geti skipað sérfræðinga utan bankans, innlenda sem erlenda, til starfa í peningastefnunefnd en slíkt getur verið til þess fallið að auka á trúverðugleika þeirrar peningamálastefnu sem rekin er.

Með lögfestingu frumvarpsins er bankastjórn Seðlabanka Íslands lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni og fer um starfslok þeirra sem nú gegna embætti samkvæmt 34. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Er í frumvarpinu þá mælt fyrir um að forsætisráðherra skuli í kjölfar gildistöku laganna svo fljótt sem við verður komið auglýsa nýtt embætti seðlabankastjóra laust til umsóknar samkvæmt ákvæðum laganna. Þar til skipað hefur verið í embætti seðlabankastjóra á grundvelli auglýsingar er jafnframt mælt fyrir um að forsætisráðherra skuli setja mann sem uppfylli skilyrði laganna til að gegna embætti seðlabankastjóra.

Loks er í frumvarpinu mælt fyrir um að Alþingi skuli eins fljótt og unnt er eftir gildistöku laganna kjósa nýtt bankaráð Seðlabanka Íslands og jafnframt til vara. Fellur þá niður frá sama tíma umboð þeirra sem þá sitja í bankaráðinu. Kosning bankaráðs að nýju er þáttur í þeirri viðleitni að endurreisa traust á Seðlabanka Íslands innan lands sem og erlendis.

Virðulegi forseti. Það er von mín að frumvarp þetta fái málefnalega en þó hraða umfjöllun og afgreiðslu í þinginu. Hver dagur er dýrmætur nú þegar svo mikið veltur á að okkur takist að endurreisa trúverðugleika og traust þeirrar mikilvægu stofnunar sem Seðlabanki Íslands er gagnvart alþjóðasamfélaginu sem og íslensku samfélagi öllu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til efnahags- og skattanefndar.