136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi farið í gegnum það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram, um breytingu á endurskipulagningu á Seðlabanka Íslands. Grundvallaratriði varðandi skipunina er — sem ekki hefur verið áður — að seðlabankastjóri er ráðinn að undangenginni auglýsingu. Það er grundvallaratriðið í þessu. Það er því forsætisráðherra sem velur á grundvelli auglýsinga í þetta starf sem er afar mikilvægt og er nýtt að sá háttur skuli vera hafður á.

Síðan er nákvæmlega tekið á því í frumvarpinu að sá sem er ráðinn skuli búa yfir ákveðnum hæfisskilyrðum sem eru talin upp í 3. gr. frumvarpsins og þar kemur fram að hann skuli hafa lokið meistaraprófi í hagfræði og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu í peningamálum. Og aðeins er heimilt að skipa sama mann seðlabankastjóra tvisvar sinnum. Seðlabankastjóri ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans, sem hér eru ekki falin öðrum með lögum þessum.

Þetta er auðvitað mikil breyting frá því sem verið hefur. Þarna er verið að innleiða nýjar aðferðir að því er varðar skipan seðlabankastjóra. Það sem ekki er síst mikilvægt er að hér er innleidd stefna í þeim málum sem er viðtekin í öðrum löndum, þ.e. að koma á peningastefnunefnd en í 4. gr. frumvarpsins kemur fram með hvaða hætti hún skuli skipuð. Í frumvarpinu er því allt gert til þess að skipanir séu faglega og að faglegir aðilar ráði í Seðlabankanum.