136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki miklu efnislega í því sem ég spurði um í fyrra andsvari mínu. Það kom ekkert fram um það hvaða faglegi undirbúningur hefði átt sér stað. Það var bara fullyrt að faglegur undirbúningur hefði átt sér stað.

Hvorki í greinargerðinni né í ræðu hæstv. forsætisráðherra bar neitt á því að greint væri frá því hvernig sá faglegi undirbúningur var eða hvernig honum var háttað. Við vitum að þegar stjórnarfrumvörp eru lögð fram þá er yfirleitt sá háttur hafður á að leitað er til einhverra sérfræðinga. Það er afar sjaldgæft í sambandi við stjórnarfrumvörp af þessu tagi að því sé haldið leyndu hverjir það eru, sérstaklega þegar um er að ræða jafnmikilvæga stofnun og Seðlabanka Íslands.

Staðreyndin er sú, og hæstv. forsætisráðherra getur auðvitað svarað því þegar hún kemur upp í öðru andsvari, að þetta frumvarp er ekki faglega unnið. Hér er eingöngu um að ræða lítið breytta breytingartillögu sem flutt var við meðferð málsins (Forseti hringir.) árið 2001. Hún er tekin næstum óbreytt (Forseti hringir.) upp, skellt hér inn í frumvarpsformi án þess að nokkur fagleg athugun hafi átt sér stað.