136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:25]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að andmæla því sem hv. þingmaður heldur fram. Það er náttúrlega ljóst að aðstæður í þjóðfélaginu eru mjög sérstakar. Hér þarf að vinna hratt og vel og skipulega. Við höfðum ekki langan tíma til þess að vinna þetta mál. En ég tel að undirbúningurinn að því, miðað við þann tíma sem við höfðum, hafi verið góður og það sé ekkert við hann að athuga. (BÁ: Copy/paste frá 2001.)

Eins og ég sagði áðan þá var skoðað og borið saman hvernig farið er með sambærileg mál í öðrum löndum og sú leið var auðvitað valin sem best þótti til þess fallin að hægt væri að fara fljótt og greiðlega í þetta mál. Eins og hv. þingmenn vita þá hefur líka verið uppi umræða um hvort skoða ætti Fjármálaeftirlitið í leiðinni og fella saman verkefni þess og Seðlabankans. Til þess gafst ekki tími. Það getur vel verið að (Forseti hringir.) síðar meir munum við skoða það (Forseti hringir.) en þetta er sú leið sem ég tel að sé best til þess fallin að fara fljótt og (Forseti hringir.) vel í þessa endurskipulagningu á Seðlabankanum.