136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:32]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér miðað við þá umræðu sem hér hefur farið fram af hálfu hv. sjálfstæðismanna hvort þeir séu á móti því að ráðist verði í endurskipulagningu á Seðlabankanum með þeim hætti sem hér er lagt til. (Gripið fram í.) Það hefur verið kallað eftir því, ef hv. þingmaður hefur fylgst með, hjá þjóðinni að þessi endurskipulagning fari fram og hv. þingmaður hefur líka væntanlega fylgst með því á alþjóðavettvangi hvernig eftir því er kallað að það verði á þessu breytingar. Þetta er að mínu mati grundvallarforsenda fyrir því að við getum farið í þá endurreisn sem við (Gripið fram í.) þurfum á íslensku samfélagi og íslensku efnahagslífi, grundvallarforsendan, og ég vona, þegar hv. þingmaður skoðar betur hug sinn, að hann sé sammála því.