136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það frumvarp sem við höfum fyrir framan okkur ber með sér að það er fremur flausturslega unnið. Eins og ég nefndi áðan í andsvari mínu er greinargerðin rýr í roðinu og það kemur ekkert fram um það hvers vegna þær breytingar eru lagðar til sem þar er að finna. Það er talað um þörf á breytingum. En það er enginn sérstakur rökstuðningur þar fyrir þeim tilteknu breytingum sem frumvarpið felur í sér. Þetta er auðvitað galli því að með þessu er allsendis óljóst hvort frumvarpið er yfir höfuð til þess fallið að ná markmiðum sínum auk þess sem það kemur ekkert fram um það hvort aðrar leiðir hafi verið skoðaðar, aðrir valkostir. Það kemur ekkert fram um það hvort leitað hafi verið til annarra landa um fyrirmyndir — og ummæli hæstv. forsætisráðherra áðan skýra það ekki — eða að það hafi yfir höfuð farið fram nokkur fagleg úttekt eða greining á því hvers konar breytingar yrðu gerðar til að efla og styrkja Seðlabankann, en ég held að það hljóti að vera markmið okkar allra.

Ég tel með öðrum orðum að hér sé um handarbakavinnubrögð að ræða af hálfu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórnar. Ég minni á að við erum hér að fjalla um Seðlabanka Íslands, stofnun sem gegnir lykilhlutverki í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar. Þegar farið hefur verið út í breytingar á lögum um Seðlabankann á undanförnum árum og áratugum hefur jafnan verið vandað til verka. Það er alveg sama hvaða ríkisstjórn hefur verið við völd, tvennt einkennir undirbúning frumvarpa sem hafa orðið að lögum um Seðlabankann, annars vegar faglegur undirbúningur og hins vegar víðtækt pólitískt samráð. Þetta ætti til dæmis hæstv. fjármálaráðherra sem hér var staddur áðan að kannast við enda var hann fulltrúi stjórnarandstöðuflokksins Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í því nefndarstarfi sem skilaði seðlabankalögunum 2001. Þar voru stjórnmálamenn eða fulltrúar flokkanna skipaðir í nefnd sem vann mánuðum saman að því að undirbúa breytingar á lögum um Seðlabankann og naut faglegrar aðstoðar sem ekki þótti nein ástæða til að halda leyndri þegar það frumvarp var lagt fram. Sami háttur var hafður á þegar frumvarp var lagt fram um breytingar á lögum um Seðlabankann snemma á tíunda áratugnum sem reyndar varð ekki að lögum og raunar var sami háttur líka hafður á 1986 þegar veigamiklar breytingar voru gerðar á seðlabankalögunum. En engu slíku er fyrir að fara nú. Það er enginn faglegur undirbúningur og það er ekkert pólitískt samráð.

Það er enginn tilviljun að svona hefur verið vandað til verka við undirbúning frumvarpa um Seðlabankann á liðnum árum. Annars vegar er um að ræða mikilvægi Seðlabankans sem stofnunar í samfélaginu. Það hefur verið talið mikilvægt að starf hans og löggjöf um hann byggðist á stöðugleika, að það væri ekki undir því komið hvernig stjórnarskipti verða í landinu hvernig fyrirkomulagi Seðlabankans er háttað. En nú eru greinilega breyttir tímar.

Það hefur líka verið lögð á það mikil áhersla í allri umræðu um seðlabanka á liðnum árum að seðlabankar væru sjálfstæðir. Það er viðtekin skoðun um allan hinn vestræna heim. Um það var enginn sérstakur ágreiningur þegar seðlabankalögin voru sett 2001. Bæði stjórnmálamenn, hagsmunaaðilar og faglegir ráðgjafar voru sammála um að efla sjálfstæði Seðlabankans, setja honum skýr markmið að lögum en láta honum eftir sjálfstæði til að ná þessum markmiðum. En aðdragandi þessa frumvarps sem hér liggur fyrir og raunar dæmalaus og óvönduð stjórnsýsla hæstv. forsætisráðherra í sambandi við málefni bankans að undanförnu ber ekki vott um að á þeim bæ sé mikið hugsað um sjálfstæði Seðlabankans. Í frumvarpinu er ekkert fjallað um þann þátt, engar vangaveltur eru um það hvernig breytingar sem boðaðar eru hafi áhrif á sjálfstæði bankans.

Ég vil taka það skýrt fram, sérstaklega vegna orða hæstv. forsætisráðherra hér áðan, að við sjálfstæðismenn höfum í kjölfar bankahrunsins í haust talið að rík ástæða væri til að endurskoða löggjöf um Seðlabanka og aðrar stofnanir sem hafa lykilhlutverki að gegna í eftirliti með fjármálakerfinu. Í nóvembermánuði lagði Geir H. Haarde fram tillögur sem fólust í því að skoða þá breytingu að sameina Seðlabanka og Fjármálaeftirlit í tengslum við slíka endurskoðun. Það var meðal annars byggt á ábendingum sem fram höfðu komið af hálfu sérfræðinga. Þessu var ekki illa tekið af hálfu samstarfsflokks okkar sjálfstæðismanna miðað við það sem fram hefur komið í fjölmiðlum. Hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson sagði reyndar opinberlega að á þessari leið væru bæði kostir og gallar. En hugmyndinni var alls ekki hafnað.

Í framhaldinu ræddi hæstv. þáverandi forsætisráðherra við sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að þeir færu yfir þessi mál og létu í ljósi álit sitt á þessu viðfangsefni. Það liggur líka fyrir að fenginn var til landsins finnskur sérfræðingur á sviði fjármálaeftirlits til að fara yfir þessi mál með tilliti til skipulagsbreytinga. Starfi hans er ekki lokið og álit sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins liggur ekki fyrir. Þessu frumvarpi er fleygt fram án þess að beðið sé eftir þessum niðurstöðum. Það er nefnilega eins og ég sagði áðan að við sjálfstæðismenn höfum verið reiðubúnir til að fara yfir þessa löggjöf með málefnalegum hætti, skoða stöðu eftirlitsstofnana, skoða hvernig eftirliti með fjármálamarkaðnum verði best fyrir komið. En við krefjumst þess að það sé gert með málefnalegum hætti, það verði gert faglega en ekki í neinu óðagoti.

Ég held að það sé nauðsynlegt að yfir alla þessa þætti verði farið í umfjöllun málsins í þinginu, bæði í umræðum og í störfum þingnefnda. Flaustursleg vinnubrögð sem þetta frumvarp ber með sér kalla auðvitað á að miklu meiri grunnvinnu þarf að vinna í þinginu, miklu meiri grunnvinnu en ef vandað hefði verið til verka þegar frumvarpið var lagt fram. Raunar er það svo að þetta frumvarp og allur aðdragandi þess kalla á miklu fleiri spurningar en það svarar. Þessar spurningar lúta að bæði að þeim þáttum sem fjallað er um í frumvarpinu sjálfu og þeim sem líka er þar að finna. Ég vænti þess að hér við umræðuna fáum við einhver svör við þessum spurningum og vona að hæstv. forsætisráðherra geti gert okkur grein fyrir því á eftir.

Meðal þessara spurninga var sú sem ég spurði áðan í andsvari um faglegan undirbúning og svör hæstv. forsætisráðherra voru fremur rýr við henni. Eins og ég sagði áðan þá var bara fullyrt að faglegur undirbúningur hefði átt sér stað. Þess sjást engin merki í frumvarpinu sjálfu. Þess sjást engin merki í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Það er bara fullyrt. Það kemur ekki fram neinn samanburður á löggjöf um seðlabanka í mismunandi löndum. Það kemur ekki fram neinn samanburður á því hvaða leiðir eru farnar til dæmis við peningamálastefnunefndir sem er lykilatriði í þessu frumvarpi. Ekkert bendir til þess að kostir hafi verið vegnir og metnir og bornir saman. Ef forsætisráðherra getur ekki gert grein fyrir því betur hér á eftir þá hlýtur að verða kallað eftir þessu ítarlega í starfi þingnefndar.

Varðandi stjórnkerfi bankans að öðru leyti er nauðsynlegt að geta þess að nú er það þannig að þrír sjálfstæðir bankastjórar eru við bankann. Einn er aðalbankastjóri en hinir tveir eru sjálfstæðir bankastjórar sem eru skipaðir á eigin forsendum. Þessir þrír menn mynda bankastjórn sem tekur ákvörðun í peningastefnu bankans. Ég velti fyrir mér þeirri breytingu sem boðuð er í frumvarpinu að í stað þriggja sjálfstæðra bankastjóra sem koma sér saman um niðurstöðu varðandi peningastefnuna þá eigi að hafa einn bankastjóra. Síðan á að vera peningastefnunefnd þar sem eru tveir undirmenn þessa bankastjóra og síðan tveir sérfræðingar sem þessi bankastjóri skipa. Spurningin er: Er ekki þarna að í staðinn fyrir að hafa dreift vald þar sem þrír sjálfstæðir menn taka afstöðu til mála þá er valdið hjá einum manni og síðan fjórum sem eru annaðhvort undirmenn hans eða honum háðir? Ég velti fyrir mér hvort þetta sé til þess fallið að veita peningastefnunefnd sérstakan trúverðugleika. (Gripið fram í.) Mismunandi leiðir eru farnar í sambandi við skipun peningastefnunefnda í heiminum eins og áður hefur komið fram. Ég hlýt að spyrja af því að það er hæstv. forsætisráðherra sem leggur þetta frumvarp fram, leggur þessa tillögu fram. Þá hlýt ég að spyrja: Af hverju var þessi leið farin en ekki leiðir sem eru til í öðrum löndum varðandi mismunandi hátt á skipun, varðandi mismunandi hátt á því hverjir tilnefna í peningastefnunefnd, varðandi mismunandi leiðir um það hversu margir sitja í peningastefnunefnd og svo framvegis. Frumvarpið og ræða forsætisráðherra gefa okkur engar vísbendingar um að nokkur samanburður hafi verið gerður eða málefnalegt mat á því hvaða leiðir væru bestar í þessu efni, né hvers vegna sú leið var valin sem hér liggur fyrir.

Ég vil taka það fram að ég tel að það geti verið ágæt rök fyrir því að hafa peningastefnunefnd í einhverju formi. En mig skortir upplýsingar. Mig skortir fagleg rök fyrir því að þessi leið er valin en ekki einhver önnur. Ef hæstv. forsætisráðherra getur ekki svarað því hér á eftir þá hlýtur að verða spurt um það ítarlega í þeirri þingnefnd sem þetta fær til meðferðar.

Eins er ástæða til að velta því svolítið fyrir sér hvernig standi á því að þær tilteknu hæfniskröfur séu gerðar sem fram koma í frumvarpinu. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort í þeim efnum hafi verið leitað til annarra landa, hvort hún þekki eða hennar sérfræðingar, hinir leyndu sérfræðingar, geti gefið okkur einhverjar upplýsingar um það hvort hæfiskröfur af því tagi sem hér liggja fyrir í frumvarpinu um meistarapróf — það vekur reyndar athygli að það er meistarapróf en ekki doktorspróf og vekur spurningar um það hvort þetta sé sérsniðið fyrir einhvern einstakling — en hvað sem því líður þá velti ég því fyrir mér hvort leitað hafi verið fyrirmynda í öðrum löndum varðandi lögbundnar hæfnisköfur um embætti seðlabankastjóra. Nú liggur fyrir að í seðlabönkum víða um heim eru menn hagfræðimenntaðir. Þar eru líka lögfræðimenntaðir menn. Mér dettur í hug Frakkland. Mér dettur í hug Lúxemborg. Mér dettur í hug Þýskaland þar sem þrír af fimm bankastjórum eru lögfræðimenntaðir. Ég velti þessu fyrir mér. Hvert var fyrirmyndanna leitað? Á hvað var horft?

Maður hlýtur að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki hafi verið talin ástæða til að skoða aðra þætti en þá sem getið er um í frumvarpinu. Nú hafa komið fram gagnrýnisraddir á peningastefnu Seðlabankans á undanförnum árum. Er eitthvað í þessu frumvarpi sem fjallar um peningastefnuna að öðru leyti en stjórnsýsluna, um peningastefnuna sjálfa, um þau markmið sem Seðlabankanum eru sett með lögum um stöðugt verðlag? Þetta eru atriði sem öll hafa verið gagnrýnd mjög harðlega, meðal annars af ýmsum fræðimönnum í opinberri umræðu. Leiddi hæstv. ríkisstjórn ekkert hugann að því að það kynni að vera ástæða til að breyta fleiri þáttum þarna? Er þetta ekki atriði sem líka skiptir verulegu máli eða var það þannig að það var bara verið að hugsa um einstaklinga sem gegna bankastjórastöðum?

Ég velti líka fyrir mér hvort ekki hafi verið velt upp þeim möguleika að breyta með einhverjum hætti bankaráði. Hér kemur í frumvarpinu einungis fram að það eigi að setja núverandi bankaráð af og kjósa nýtt. Var engum hugmyndum velt upp um það hvert hlutverk bankaráðsins ætti að vera? Nú er það eitt af þeim atriðum sem hefur verið töluvert til umræðu í opinberri umræðu á síðustu árum hvert hlutverk bankaráð Seðlabankans er. Var því ekki velt upp? Þegar maður sér öll þessi göt í sambandi við frumvarpið og undirbúning þess þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvað búi að baki. Er það málefnalegur, faglegur vilji til að efla Seðlabanka Íslands? Eru það málefnaleg fagleg sjónarmið? Og ef þetta eru málefnaleg og fagleg sjónarmið, af hverju er þá ekki hægt að gera okkur grein fyrir þeim? Eða er þetta eins og mann grunar fyrst og fremst spurningin um það hvaða einstaklingar gegna embætti seðlabankastjóra og þá einkum aðalbankastjóra bankans?