136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það þurfi enginn að velkjast í vafa um að sjálfstæðismönnum var full alvara með því að fara yfir eftirlitsstofnanir á sviði fjármálamarkaðar, meta hvað þyrfti að bæta á því sviði, hverju þyrfti að breyta í lögum og hverju þyrfti að breyta í sambandi við stjórnsýslu þessara stofnana. Sett var af stað ákveðin athugun á því máli. Samfylkingin hafði einfaldlega ekki tíma til þess að bíða eftir niðurstöðu og núverandi ríkisstjórn og núverandi hæstv. forsætisráðherra (Gripið fram í.) hafa bara ekki haft tíma til þess.

Ég spyr vegna frammíkalls hæstv. iðnaðarráðherra: Eru ekki sérfræðingar að störfum í Fjármálaeftirlitinu sem búnir eru að fara yfir þau mál? Eru ekki sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að meta hvernig þessum málum verður best fyrir komið? Ég spyr: Hvers vegna telja menn ekki ástæðu til þess að bíða eftir þessum niðurstöðum? (Forseti hringir.)