136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að biðja herra forseta um að hlutast til um að ráðherrar í ríkisstjórn verði viðstaddir þessa umræðu. (Gripið fram í.) Ég sé að hæstv. iðnaðarráðherra er hérna á vappi en ég hef ekkert séð í hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra nú og hefur reyndar hæstv. fjármálaráðherra verið afar lítið viðstaddur þessa umræðu.

Það er alveg ljóst að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar felur í sér grundvallarbreytingu á uppbyggingu Seðlabanka Íslands. Þetta eru ekki smávægilegar breytingar sem tekur enga stund að ræða. Þetta eru grundvallarbreytingar á því hvernig uppbyggingu Seðlabankans er háttað, hvernig menn fara með peningamálastefnuna í landinu, þannig að þó að ekki sé um margar greinar að ræða eru þetta grundvallargreinar sem þarna eru á ferðinni.

Þess vegna er ég svolítið undrandi á því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson telji það ekki heppilegt að meira samráð hefði verið haft við samningu þessa frumvarps vegna þess að Seðlabanki Íslands er ein af grundvallarstofnunum hér í landinu. Vægi hans í efnahagskerfi þjóðarinnar er gríðarlega mikið og þótt menn geri öðrum upp skoðanir á því að vilja ekki greiða fyrir framgangi þessa máls get ég ekki fallist á það fyrir minn hatt. Mér finnst að í svona máli eigi að vera um að ræða samráð milli allra flokka eins og alltaf hefur verið þegar frumvörp um Seðlabanka Íslands hafa verið lögð fram alveg frá því að Seðlabanki Íslands var settur á laggirnar árið 1961. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Seðlabanka Íslands sem lagt er fram frumvarp af hálfu ríkisstjórnarflokka þar sem ekki er búið að tryggja að allir flokkar komi að málinu. (Gripið fram í.)

Hér er líka um að ræða minnihlutaríkisstjórn sem styðst við minni hluta Alþingis með stuðningi framsóknarmanna. Það er því verið að brjóta blað í því hvernig farið er að málum í Seðlabanka Íslands og það er ekkert óeðlilegt við að menn (Forseti hringir.) vilji ræða það þá betur hér í þingsal.