136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekki eitt einasta orð um það að mér fyndist að ekki ætti að hafa samráð um þetta mál. Ég kannast ekki við að það hafi hrotið af vörum mínum í ræðu minni hér áðan.

Að sjálfsögðu er eðlilegt að haft sé samráð um þetta mál eins og öll önnur og hægt er að gera það. Nefndin sem fær málið til umfjöllunar mun t.d. ugglaust kalla eftir umsögnum, kalla fólk á sinn fund og heyra viðhorf og sjónarmið.

Varðandi það að hér sé brotið blað að flutt sé stjórnarfrumvarp um málefni Seðlabankans án þess að samið hafi verið um það fyrir fram milli allra stjórnmálaflokka þá kann vel að vera að hingað til hafi öll löggjöf Seðlabankans verið unnin með þeim hætti. Ég hef ekki farið í þá söguskoðun að ég geti tjáð mig um það en treysti því að hv. þm. Ólöf Nordal hafi gert það og trúi því.

Vel getur verið að það sé ekki tilviljun að svona sé staðið að málum núna. Brýna nauðsyn ber til að taka málefni Seðlabankans til endurskoðunar, yfirstjórnina og stefnumörkunina í peningamálum, og vel kann að vera að fram hefði komið andstaða við fyrirhugaðar breytingar af hálfu eins stjórnmálaflokks, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins. Vel má vera að ekki hafi verið í boði að skapa um málið breiða pólitíska samstöðu, vera kann að málum sé nákvæmlega þannig háttað.