136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að mótmæla því sem hv. þingmaður segir hér að enginn beri ábyrgð á frumvarpinu vegna þess að þess sé ekki getið í greinargerð hvaða einstaklingar eða sérfræðingar úr stjórnsýslunni hafa komið að samningu þess. Frumvarpið er flutt af hæstv. forsætisráðherra og er að sjálfsögðu á ábyrgð ráðherrans sem það flytur.

Það skiptir engu þó að hér stæði einhver listi af nöfnum einstaklinga sem komið hefðu að samningu málsins. Það er alltaf flutt á ábyrgð þess ráðherra sem leggur það fram en ekki þeirra embættismanna, sérfræðinga eða starfsmanna ráðuneyta, sem koma að samningu þess. (REÁ: Þetta er pólitískt frumvarp, ekki faglegt.)

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessu frammíkalli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Frumvarpið er að sjálfsögðu á pólitíska ábyrgð. Hefur það ekki verið þannig þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd að frumvörp væru lögð fram á pólitíska ábyrgð hans? (REÁ: Við höfum ekki falið sérfræðingana.) Hvað er hv. þingmaður eiginlega að segja? Ég botna ekkert í þessu.

Hv. þm. Pétur Blöndal segir: Bréfið mun fara í Íslandssöguna. Hæstv. forseti. Bankahrunið mun fara í Íslandssöguna. Það er það sem mun fara í Íslandssöguna. Framganga útrásarvíkinganna, frammistaða bankanna, eftirlitsstofnana o.s.frv. og ríkisstjórnar undir forustu Sjálfstæðisflokksins í 18 ár sem setti landið á hausinn, það mun fara í Íslandssöguna.