136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:48]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Hann fór mörgum orðum um ráðherratíma sinn en ekki svo ýkja mörgum um frumvarpið sjálft. Ég er með örfáar spurningar en ætla fyrst að rekja umræðuna sem fram kom hjá hv. þingmanni.

Mjög skýrt kom fram að nauðsynlegt væri að skipta um fólk í lykilstöðum. Jafnframt kom fram hjá hv. þingmanni að skoðanakannanir sýndu að skipta þyrfti um. Það þyrfti að stjórna svona og svona.

Ég held að afskaplega hæpið sé að þeir sem veljast til Alþingis og jafnvel ráðherratignar sveiflist eftir skoðanakönnunum. Þær eru breytilegar og ýmislegt sem í þeim er rætt.

Hv. þingmaður nefndi að hann hefði sagt af sér sem viðskiptaráðherra þar sem hann hefði séð að breytinga þyrfti við. Athyglisvert var að sú afsögn var ekki tekin gild. Forsetinn tók hana ekki gilda þannig að hv. þingmaður sat sem ráðherra þar til ný ríkisstjórn var mynduð. Þá kom fram að þetta væri svolítið fljótfærnislegt frumvarp og í raun bara uppkast. Ég skildi það þannig.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað með að fara út í þá vinnu að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann? Hv. þingmaður þekkir þessi mál og fyrsta spurning mín til hans er: Hvað með að breyta löggjöfinni með þeim hætti að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn sameinist? Hv. þingmaður nefndi ráðgjafa sem hafa unnið að þessum málum og ég vil gjarnan fá að heyra svörin.