136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:58]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst svara því sem hv. þingmaður vísaði til um stjórn Fjármálaeftirlitsins. Ég sagði henni ekki upp. Ég tilkynnti formanni stjórnar það að morgni sunnudagsins sem ég sagði af mér embætti viðskiptaráðherra að ég ætlaði að gera svo. Þá ákvað hann sjálfur í sama símtali að gera slíkt hið sama. Ég hafði skipað hann og þar með þótti honum tími sinn á enda runninn. Síðan óskaði ég eftir því við restina af stjórninni að hún færi frá. En ég rak hana ekki.

Að sjálfsögðu er þetta alltaf matsatriði. Pólitísk stjórnun og pólitík hagfræðinganna liggur fyrir. En Alþingi markar stefnuna. Alþingi samþykkti lög um Seðlabanka árið 2001 og Alþingi ber meginábyrgð á þeirri peningamálastefnu sem hér hefur goldið algjört afhroð. Það eru ekki einstaklingar í Seðlabankanum eða annars staðar sem bera meginábyrgðina á því. Það er Alþingi sjálft og ríkisstjórnir þess tíma, fyrri tíma og fram að þessum tímum öllum, sem yfir okkur gengu hér í haust, sem bera þar meginábyrgð. Alþingi ákvað rammann og ákvað með þessum lögum að hér yrði peningamálastefna með þeim hætti sem hún var. Fljótandi króna með verðbólgumarkmiðum. Tækin stýrivextir, bindiskylda og fleira. Alþingi skaffaði Seðlabankanum þessi tæki og skapaði rammann og meginábyrgðin liggur þar. Þannig verður það áfram.

Með einum seðlabankastjóra sem er ráðinn eftir þessum menntunarkröfum verða ábyrgðin og verkstjórnin vissulega skýrari. Ábyrgðin verður að sjálfsögðu áfram ríkisstjórnar og Alþingis og hagfræðingurinn sem fyrir bankanum fer vinnur alltaf út frá því sem Alþingi markar. Þannig að ég held að það verði ekki til óbóta í því máli.