136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að peningamálastefnan hefði goldið algjört afhroð og það er einmitt það sem ég hef verið að undirstrika á undanförnum fjórum, fimm árum, að hún væri meingölluð.

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann af því að hann segir að þannig verði það áfram: Er meiningin að hafa peningamálastefnuna óbreytta? Ég sé ekkert í þessu frumvarpi sem breytir peningamálastefnunni. Þetta frumvarp finnst mér ekki vera mjög vel unnið. Það er ekki minnst á samskipti við Fjármálaeftirlitið sem þó eru þannig að Seðlabankinn tilnefnir einn mann í stjórn Fjármálaeftirlitsins sem sagði af sér líka um daginn, þ.e. fulltrúi Seðlabankans. Það stendur ekki til að breyta því neitt. Það á að gera samstarfssamninga milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins eftir sem áður. Því er ekki breytt. Fjármálaeftirlitið á einu sinni á ári að tilkynna viðskiptaráðherra um vinnslu mála. Því er ekki breytt heldur.

Mér finnst þetta frumvarp því ekki taka á þeim vanda sem menn tala um sem er nú kannski fyrst og fremst vandi Fjármálaeftirlitsins að hafa ekki haft eftirlit með þessum Icesave-reikningum nægilega vel og ekki unnið það nægilega hratt og fylgst með rekstri bankanna. Samskipti milli Seðlabanka og Fjármálaeftirlits voru auk þess orðin mjög fátækleg og ekki er minnst á Fjármálaeftirlitið í þessu frumvarpi eða neitt varðandi breytingar. Þar er ekki vísað í útlönd eða neitt. Það er eins og Ísland sé orðið aftengt við umheiminn þegar maður skoðar þetta frumvarp sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram.