136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ekki var þetta nú gott svar hjá hæstv. fjármálaráðherra, að einn pólitískur seðlabankastjóri sé betri en þrír. Ég er hræddur um að stefnan yrði þá enn skýrari þegar það er bara einn sem ræður og hefur ákveðna skoðun. Ef þeir eru þrír gætu þeir hugsanlega haft eitthvað mismunandi skoðanir í pólitík og/eða jafnvel engar. Þetta yrði þá bara hrein eins manns pólitísk stjórn sem þarna yrði og eins og ég gat um áðan þá er allt þetta peningaráð háð honum einum. Þeir verða undirmenn hans og hann hefur þá náttúrlega í vasanum eins og menn hafa undirmennina yfirleitt. Tvo þeirra tilnefnir hann og þeir verða þá allir með sömu pólitík. Þeir eru ráðnir til sjö ára og svo talar hæstv. ráðherra um að það mætti hugsanlega breyta þessu. En hvað á þá að gera með þann mann sem búið er að ráða til sjö ára og er pólitískur, segjum að hann sé kannski í sama flokki og hæstv. ráðherra og svo kemur ný ríkisstjórn sem er ekki ánægð með þá skoðun?