136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins út af síðustu orðum hæstv. fjármálaráðherra. Þetta voru nú svona getgátur og dylgjur sem ég vísa á bug. Athugasemdir okkar sjálfstæðismanna hér í dag hafa fyrst og fremst lotið að efnisþáttum málsins og eins því sem okkur finnst óskýrt í sambandi við þetta mál.

Ég veitti því ekki athygli, hafi hæstv. fjármálaráðherra svarað því í ræðu sinni, hvers vegna sú leið var valin sem liggur fyrir í frumvarpinu en ekki ýmsar aðrar leiðir sem farnar hafa verið í nágrannalöndum okkar varðandi útfærslu á stjórnskipulagi seðlabanka og peningamálaráði. Því eins og fram hefur komið þekkir hæstv. fjármálaráðherra allvel til þessara mála og sat í þeirri nefnd sem átti heiðurinn af frumvarpinu 2001 og veit að það eru ýmis sjónarmið uppi í þessum efnum. Það eru mismunandi leiðir farnar í mismunandi löndum en hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki greint okkur frá því frekar en hæstv. forsætisráðherra gerði hér áðan hvers vegna þessi útfærsla var valin en ekki einhver önnur.

Það hefur verið rauður þráður í málflutningi okkar sjálfstæðismanna í dag að við viljum fá fram hvaða sérstöku rök eru fyrir þessari niðurstöðu til að við getum áttað okkur betur á hvaða kostir eru í boði og hvaða leið er skynsamlegust. En eins og ég lýsti hér í ræðu fyrr í dag hef ég talsverðar áhyggjur af því að frumvarpið sem slíkt virðist ekki vera byggt á faglegri skoðun heldur virðist vera hugmynd sem er hent svona fram og látið nægja að halda sig við hana án þess að að baki búi einhver málefnaleg eða fagleg skoðun á þessu fyrirkomulagi.