136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við sjálfstæðismenn höfum ekki tekið afstöðu til einstakra efnisatriða í þessu frumvarpi. Við höfum hins vegar áhyggjur af því að þessu verði kastað hér fram án þess að að baki búi vönduð skoðun. Það hefur ekkert komið fram um það að hér sé á ferðinni niðurstaða faglegrar vinnu og ekki einu sinni þannig að samráðs hafi verið leitað á hinum pólitíska vettvangi um þessa niðurstöðu sem þó hefur verið venja eins og hæstv. fjármálaráðherra þekkir.

En svo maður snúi sér að einstökum efnisatriðum þá er það rétt að víða eru peningastefnuráð fyrir hendi og það er fyrirkomulag sem ég get persónulega, ég tala ekki fyrir aðra í mínum flokki, vel hugsað mér að geti komið til greina. Eins og hæstv. ráðherra bendir á þá eru slík ráð með mismunandi hætti.

Ég spyr: Er rétt að hafa peningastefnuráðið þannig að aðalbankastjóri bankans ráði því hverjir koma utanaðkomandi og hafi síðan líka undirmenn (Forseti hringir.) sína í ráðinu?