136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Seðlabankastjóri velur ekki af handahófi einhverja menn í bankanum inn í peningastefnuráðið. Þar eru yfirmenn viðkomandi sviða. (BÁ: Sem eru ráðnir af honum.) Já, en þeir gegna þeim ábyrgðarstöðum innan bankans þannig að sjálfsögðu er það skipulag sem þar kemur við sögu og síðan er það forsætisráðherra sem samþykkir þá sem koma utan að þannig að þetta er fjölskipað ráð, verður fjölskipað stjórnvald, sem greiðir atkvæði ef á þarf að halda og samanstendur með þessum hætti.

Varðandi undirbúning að málinu þá má lengi ræða um það, en yfirsést hv. þingmanni nokkuð sú staðreynd að mynduð var ný ríkisstjórn í landinu á sex dögum? Hún er á sínum fimmta starfsdegi. Þannig að hér hefur vissulega verið unnið hratt en ég tel að málið sé gott og ég tel að þetta sé rétta skipulagið. Ég tel að það sé auðvelt að rökstyðja það með sterkum faglegum rökum og þá sýnist mér það nú bara vera í lagi.