136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu mjög mikilvægt mál, breyting á lögum um Seðlabanka Íslands. Ég vil taka það fram sérstaklega hér í upphafi að ég tel mjög skiljanlegt að ný ríkisstjórn setji það í forgang, í ljósi aðstæðna, og eftir þau áföll sem yfir okkur hafa dunið, að taka til endurskoðunar lög um Seðlabanka Íslands. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við þurfum að taka allt fjármálakerfið til endurskoðunar og læra af því sem úrskeiðis fór og marka trausta stefnu til framtíðar. Að sjálfsögðu styður Sjálfstæðisflokkurinn það að slíkt endurmat fari fram og við leggjum á það áherslu að vandlega verði gætt að því að fara ekki í handahófskenndar breytingar eins og mér sýnist að þarna geti verið um að ræða.

En kannski aðeins út af þeirri umræðu sem var hér á undan á milli hv. þm. Péturs H. Blöndals og hæstv. fjármálaráðherra varðandi hagfræðinga, hæfisskilyrði og pólitík eða ekki pólitík — mér dettur nú strax í hug ágætur hagfræðingur sem uppfyllir þessi skilyrði mjög vel. Hann er með mastersgráðu í hagfræði og víðtæka reynslu af peninga- og efnahagsmálum og svo geta menn deilt um hvort hann sé pólitískur eða ekki. Það er hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Hilmar Haarde, sem uppfyllir þessi skilyrði. Ég nefni þetta nú sérstaklega hér til þess að vekja athygli á því að hagfræðingar geta verið pólitískir jafnvel þó að þeir séu óneitanlega faglegir. (Gripið fram í: Hann sækir bara um.) Ég hvet hann að sjálfsögðu eindregið til að gera það og það yrði erfitt að ganga fram hjá þeim öðlingi.

En eins og ég segi þá hefur það komið fram hér í umræðunni að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki mótfallinn því að gerðar verði breytingar á starfsemi Seðlabankans og að stefna hans verði endurskoðuð. Enda hefur það margoft komið fram að slíkar breytingar voru í vinnslu í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það einskorðast ekki við Seðlabankann heldur var samspil hans og Fjármálaeftirlitsins og jafnvel sameining þeirra stofnana til skoðunar eins og kunnugt er og hefur verið fjallað ítarlega um það hér fyrr í dag. Erlendir sérfræðingar höfðu málið til umfjöllunar og einnig hafði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verið kallaður að því borði og það var samkomulag, eftir því sem ég best veit, um það innan fyrrverandi ríkisstjórnar að þessu skyldi lokið í febrúarmánuði. En það fór eins og það fór og við ræðum það ekkert frekar hér.

Þess vegna vekur þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar talsverða furðu. Ég hafði nefnilega fyrir fram talið að með því boðaða frumvarpi — strax var gerð grein fyrir því að það yrði eitt af helstu áherslumálum ríkisstjórnarinnar — yrði tekið á verkefnum á ábyrgðarsviði bankans. Að skerpt yrði á stýritækjunum, leitað leiða til að bæta virkni þeirra til framtíðar eða á einhvern hátt lagðar til nýjar aðferðir við stjórn peningamála. En það er ekki gert og hæstv. fjármálaráðherra talaði nú um það á þann veg að þetta væri fyrst og fremst hreint og klárt skipulagsmál. Þá er það bara þannig og ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu leyfi til þess að fara í allar skipulagsbreytingar sem hún kýs að gera.

Ekki er verið að breyta um peningastefnu. Það er verið að breyta um mannskap, mannaskipan. Einn bankastjóri í stað þriggja. Peningastefnuráð sem ákveður vaxtastigið en ekki bankaráð. Ég ætla ekki að útiloka það fyrir fram að þetta geti ekki verið rétta leiðin. Ég skoða það með opnum huga og mun gera það í starfinu í efnahags- og skattanefnd. Ég hef hreinlega ekki nægar upplýsingar til þess að geta myndað mér um það skoðun á þessu stigi.

Ég hlýt samt að spyrja hæstv. forsætisráðherra, og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, hvort stefnan sjálf sem var mörkuð með seðlabankalögunum árið 2001, og var í meginatriðum studd þingmönnum allra flokka, hafi þá verið í lagi. Hefur hún ekki brugðist? Eru það bara mennirnir sem stýrt hafa bankanum sem hafa brugðist? Er það þess vegna sem breyta þarf og skipta um menn?

Er það ekki aðalatriðið, þegar talað er um traust og trúverðugleika og orðspor, að við þurfum að endurvekja traust á peningamálastefnunni? Mér finnst það nokkuð athyglisvert að núverandi stjórnarflokkar, sem að vísu hafa ekki talað í takt um stefnuna í peningamálum — hæstv. fjármálaráðherra talar um að hann sé að fara og spjalla við kollega sinn frá Noregi um norsku krónuna og ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr því samtali. Forsætisráðherra og flokkur hennar er meira inni á evruleiðinni þannig að þeir eru ekki alveg samstiga, en allt í lagi með það.

Stjórnarflokkarnir eru, með því að gera engar breytingar og boða engar breytingar í frumvarpinu á peningamálastefnunni sjálfri, að gefa henni nokkurs konar heilbrigðisvottorð. Stefnan sem sagt virkar fínt ef stjórnendur eru færðir til og skipulaginu breytt. Ég mundi gjarnan vilja fá afstöðu hæstv. forsætisráðherra til þessa atriðis. Það virðist ekki, alla vega ekki í þessu frumvarpi, hvað svo sem síðar verður, vera ætlun ríkisstjórnarinnar að gera breytingar á peningamálastefnunni sjálfri. En hún er einmitt það sem helst hefur verið gagnrýnt, og harðlega gagnrýnt, m.a. af talsmönnum og flokksmönnum núverandi stjórnarflokka, og er af mörgum talin stór liður í því hversu illa fór hjá okkur. Margir hafa talað um að peningamálastefnan hafi hreinlega verið sú að halda uppi fölsku gengi krónunnar sem endaði svo með skelfingu eins og við þekkjum.

Ég spyr því: Er það ekki nákvæmlega það sem við eigum að vera að tala um hér í dag? Ekki hverjir sitja í sætum bankastjóra eða hversu margir þeir eru. Erum við ekki að byrja á öfugum enda? Og eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á hér á að framan þá eru það ekki seðlabankastjórarnir sem bera ábyrgð á peningamálastefnunni heldur erum það við hér á Alþingi, stjórnvöld og ríkisstjórn, sem berum ábyrgð á henni. Þannig að við leysum engan vanda í því samhengi með því að skipta bara um menn.

Eins og hér hefur verið bent á virðist frumvarpið hafa verið unnið í talsverðum flýti, svo miklum flýti að bent hefur verið á að gamalt nefndarálit Samfylkingarinnar frá árinu 2001 hafi verið dregið upp úr skúffu og dubbað upp í frumvarpsform. Ég trúi ekki að menn hafi gert það og vil því kalla eftir svörum við spurningum, sem áður hafa verið lagðar fram, um það hvaða sérfræðingar voru kallaðir til við samningu frumvarpsins. Ég trúi því hreinlega ekki að núverandi stjórnarflokkar hafi gerst sekir um þau vinnubrögð að endurnýta gömul nefndarálit eins og staðan er í dag og í ljósi þess hve margt hefur breyst frá árinu 2001.

Ég vil aðeins ræða um erlenda sérfræðinga. Hæstv. forsætisráðherra þótti óþarfi að láta erlenda aðila fá frumvarpið til umsagnar. Ég tel nauðsynlegt að útvíkka umsagnarferli frumvarpsins til að það nái líka til erlendra aðila í ljósi þess að við lifum og hrærumst í alþjóðlegu umhverfi. Það er ekki síst vegna orðspors okkar á erlendum vettvangi og alþjóðlegum vettvangi sem það er svo mikilvægt að breyta um mannskap í brúnni, að sögn talsmanna ríkisstjórnarinnar. Ég tel því afar mikilvægt að við látum þýða frumvarpið í hvelli, senda það til umsagnar til erlendra aðila hvort sem það er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem ég tel nú einsýnt að þurfi að fara vel yfir það, eða aðrir. Mér dettur í hug Seðlabanki Evrópu, virtir háskólaprófessorar hér og þar sem hafa mikla þekkingu á Íslandi og sérfræðingar í erlendum greiningardeildum. Ég tel afar mikilvægt að við fáum álit sem víðast að til þess að tryggja að orðspor okkar bíði ekki frekari hnekki. Það væri t.d. afar óheppilegt að rjúka af stað með tilviljunarkenndar breytingar sem hugsanlega gætu gengið gegn framtíðarstefnumótun, það væri mjög slæmt fyrir orðsporið.

Þá vil ég næst spyrja um framtíðina — ég er reyndar að spyrja um öll þessi mál fyrir eyrum sjálfstæðismanna þar sem hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra virðast upptekin af eigin samtali. Ég endurtek þá spurningu sem borin var upp í andsvari hér áðan, um sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins, og vil beina henni til hæstv. forsætisráðherra. Er hún algerlega út af borðinu? Hvað ætla menn þá að gera í mannahaldi þar? Hæstv. fjármálaráðherra svaraði fyrir sinn hatt að þeir ætluðu að sameina þær tvær stofnanir eins og Seðlabankinn væri eftir breytingar. En er það þá þannig að menn ætla að vera nýbúnir að skipa mann til sjö ára í stað seðlabankastjóra og fara þá í breytingarnar? Þá spyr ég aftur: Er þetta ekki öfug röð verkefna?

Mig langar að lokum að ræða um ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í frumvarpinu er talað um að þau ákvæði muni áfram gilda, eða svo segir í greinargerð. Í ljósi þess að manni sýnist að verið sé að brjóta þau lög á núverandi seðlabankastjórum með vafasömum bréfasendingum úr Stjórnarráðinu, spyr maður hvort ekki væri heiðarlegra að setja inn í þessi lög einhver ákvæði um það hvernig víkja skuli seðlabankastjóra úr starfi ef stjórnvöldum líkar ekki starfsmaðurinn. Starfsmannalögin bjóða nefnilega einungis upp á leiðir til þess að segja fólki upp brjóti það af sér í starfi. Eins og fram hefur komið hefur ekkert verið leitt í ljós þess efnis að núverandi bankastjórar hafi gert slíkt.

En mundi slíkt ákvæði kannski brjóta gegn sjálfstæði bankanna? Það skyldi þó ekki vera? Vegna þess að sjálfstæði Seðlabanka Íslands er náttúrlega lykilatriði í þessu sambandi. Megintilgangur laganna frá árinu 2001, sem allur þingheimur tók undir, eins og hér hefur komið fram, var einmitt að gera Seðlabankann sjálfstæðan. Það er í samræmi við það sem gerist annars staðar eins og svo mikilvægt er að við höldum á lofti.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í Hallgrím Ólafsson, formann starfsmannafélags Seðlabankans, sem skrifaði grein í Morgunblaðið miðvikudaginn 4. febrúar sl. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Ég er viss um að allflestir starfsmenn Seðlabankans eru mér sammála um að bankastjórarnir allir njóta trausts og virðingar innan bankans. Ekki hefur verið bent á nein afglöp né brot í starfi.“

Þannig telur að minnsta kosti þessi starfsmaður, formaður starfsmannafélagsins, að ekki sé hægt að beita 34. gr. laga, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, við að losa embættin vegna þess að ekki hefur verið bent á nein afglöp eða brot í starfi.

Ég vil því næst vitna í hæstv. forsætisráðherra sjálfan sem hér í upphafi viku í skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar sagði:

„Við skulum halda í heiðri þá grundvallarréttarreglu að enginn er sekur fyrr en það hefur verið leitt í ljós lögum og reglum samkvæmt. Höldum í heiðri mannréttindi allra og gætum þess að uppgjör okkar snúist ekki upp í nornaveiðar af neinu tagi. Við búum í réttarríki og það er hvorki vilji ríkisstjórnar né alþingismanna að ganga á svig við meginreglur réttarríkisins. Það vil ég undirstrika hér í kvöld.“

Ég er mjög sammála hæstv. forsætisráðherra í þessum orðum og vil því hvetja til vandvirkni í vinnubrögðum í þessu máli. Eins og nýskipaður forseti Alþingis sagði í fyrstu ræðu sinni mun þessi ríkisstjórn leggja áherslu á réttláta stjórnsýslu. Ég vil hvetja ríkisstjórnina til að huga að og fara vel eftir eigin orðum í þessu samhengi og leggja áherslu á vönduð vinnubrögð.

Frumvarpið fer núna til nefndar og ég tel afar mikilvægt að við leggjum mikla vinnu í að fara yfir öll atriði málsins. Ég er í efnahags- og skattanefnd og mun beita mér fyrir mjög vandaðri umfjöllun þar. Það var mjög jákvætt að heyra hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, formann nefndarinnar, boða það að farið yrði mjög vandlega yfir frumvarpið og öll atriði, ekki bara hvað varðar skipulagsmál, tekin og rædd ef þess verði óskað.

Ég tel það eins og ég segi vera mjög jákvætt og hlakka til að fara í þá vinnu. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan um erlendu umsagnaraðilana og hvetja hæstv. forsætisráðherra til að láta þýða frumvarpið hið snarasta og koma því út til umsagnar. Eins og við höfum orðið vitni að er það ekki lengur einkamál okkar Íslendinga hvernig við vinnum hér og fjármálakerfi okkar er tengt alþjóðlega þannig að við þurfum að gæta okkar í þessu sem öðru.