136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þeim fjölgar sem vissu allt saman fyrir fram, og löngu fyrir fram, og það áttu allir að vita það, m.a. sá sem keypti hlutabréf í Glitni fyrir milljarða daginn fyrir fallið, hann var bara ekki með þessa almennu þekkingu.

Hv. þingmaður segir að ekki hafi verið annarlegar hvatir að baki þessa frumvarps. Mig langar að spyrja hann: Hvað þýðir þá bréfið sem hæstv. forsætisráðherra sendi bankastjórn Seðlabankans áður en frumvarpið var lagt fram, þar sem hann biður þá um að segja af sér? Frumvarpið kemur síðan í kjölfarið.

Er frumvarpið eingöngu hugsað til þess að segja þeim upp? Eru það öll faglegheitin í þessu? Talandi um annarlegar hvatir: Hvernig tengir hv. þingmaður þetta bréf og frumvarpið sem getið er um í bréfinu — eru þetta ekki annarlega hvatir?

Hvorki í ræðu hæstv. forsætisráðherra né í greinargerð með frumvarpinu er ekki minnst orði á útlönd. Það er eins og við séum komin heim í heiðardalinn og séum búin að loka öllum landamærum við útlönd eins og margir segja að Vinstri grænir vilji. Er það í samræmi við stefnu hv. þingmanns sem hefur sagt að við eigum að horfa mikið til útlanda og taka mið af því sem þar er verið að gera? Er eitthvað í frumvarpinu sem tekur mið af því sem er að gerast í útlöndum? Mig langar að spyrja hv. þingmann að því.