136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einn reginmunur á. Annars vegar er tilkynnt um það að menn ætli að gera kerfisbreytingar, hvort sem það er að breyta peningamálastefnu Seðlabankans, breyta um stjórn eða eitthvað slíkt eða sameina það Fjármálaeftirlitinu, og tilkynna lagabreytingu í því skyni. Hins vegar er bréf skrifað til opinberra starfsmanna og þeir beðnir um að segja upp áður en Alþingi er búið að taka ákvörðun um að breyta lögunum. Það liggur ekkert fyrir að Alþingi samþykki þetta, Alþingi hefur sjálfstæðan vilja. Það er nú þannig.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann: Segjum að nýr seðlabankastjóri, sem er ráðinn til sjö ára, geri nú mistök líka. Hvað ætla menn þá að gera? Og hann vill ekki hætta. Á þá að setja ný lög?