136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Um er að ræða skipulagsbreytingu í því frumvarpi sem hér er lagt til. Lagt er til að stjórnskipulagi Seðlabankans verði breytt. Lagt er til að lögð verði af — aldrei var talað um að breyta peningamálastefnu, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) í þeim frumvarpshugmyndum sem hv. þm. Geir H. Haarde þóttist hafa haft áhuga á að setja fram, hann talaði þar einungis um breytingu á Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og ekkert annað.

Hér er verið að breyta stjórnskipulagi Seðlabankans til þess að losna við þriggja manna stjórn sem er séríslenskt fyrirbæri og hefur ekki gefist vel — um það vitnar fjármálastöðugleiki og árangurinn af peningamálastefnu undanfarinna ára alveg ljóslega — og setja á annars konar kerfi sem byggist á faglegum forsendum. (Gripið fram í.)

Við skulum vona, hv. þingmaður, að sá bankastjóri sem ráðinn verður sýni ekki af sér þá forakt gagnvart fólkinu í landinu sem þeir þrír bankastjórar sem nú sitja hafa gert.