136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rangt af hv. þingmanni að reyna að skjóta skildi fyrir yfirstjórn Seðlabankans með því að vísa í starfsmenn Seðlabankans. Ég vék aldrei að framgöngu starfsmanna Seðlabankans hér áðan. Ég var að ræða um aðgerðir bankastjórnarinnar, augljóslega rangar ákvarðanir sem teknar hafa verið. Ákvarðanir sem standast ekki efnisleg rök. Yfirlýsingar sem bankastjórnir gefa í ólíkar áttir um sömu atriði. Fara greinilega þar af leiðandi ekki með rétt mál báðir tveir. Annar segir ekki satt. Hvor?

Það er greinilegt að ósannfærandi skýringar eru settar fram fyrir málum. Málum er ekki haldið fram með eðlilegum hætti að því leyti að ekki eru til skjalfest gögn um meintar yfirlýsingar sem seðlabankastjórnin hefur haft í frammi. Við stöndum í miðjum ólgusjó. Við þurfum að endurreisa tiltrú á íslenskt efnahagslíf og íslenskan fjármálamarkað. Lykilatriði í því er að byggja faglega umgjörð utan um peningamálastefnu til framtíðar. Það verður ekki gert með yfirstjórn í seðlabanka sem er trausti rúin innan lands sem utan.

Þessi varðstaða Sjálfstæðisflokksins, um óbreytt ástand í Seðlabankanum, er með ólíkindum. Hún sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn meinti aldrei neitt með því að þykjast ætla að reyna að breyta yfirstjórn Seðlabankans. Hér eru hagsmunirnir fyrst og fremst þeir að verja flokkinn og hagsmuni þeirra sem flokkurinn hefur komið fyrir. Ekki er verið að horfa til þess að byggja upp forsendur fyrir efnahagslegri endurreisn til lengri tíma litið. Við þurfum að auka tiltrú á íslensku samfélagi og það verður gert með nýjum aðferðum og nýju fólki.