136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin getur án vafa skýrt með hvaða hætti unnið var að gerð frumvarpsins. Um það hef ég ekki upplýsingar frekar en aðrir þingmenn sem hér fjalla um það mál, sem lagt hefur verið fram af ríkisstjórninni.

Hins vegar er mergur málsins sá að hér er lagt fram frumvarp sem vísar veginn fram á við og skapar þá faglegu umgjörð um stjórn peningamálastefnu sem hefur átakanlega skort á undanförnum árum og allir sem tjáð sig hafa um íslenskt efnahagslíf erlendis hafa kallað eftir að gilti hér. Allir hafa verið einhuga um að vara við því ástandi sem hefur ríkt í yfirstjórn peningamálastefnunnar og því samkrulli stjórnmála og efnahagsmála sem Sjálfstæðisflokkurinn bjó til á toppi Seðlabanka Íslands.

Þetta er rangt ástand og mér finnst ótrúlegt að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn skuli halda að óbreytt yfirstjórn Seðlabankans sé hluti af þeirri lausn sem íslenskt (Forseti hringir.) samfélag þarf á að halda til að komast út úr efnahagsvandanum (Forseti hringir.) sem við er að glíma í dag.