136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:24]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég má eiginlega ekki vera að því að hlusta á þau gífuryrði sem falla af vörum hv. þm. Árna Páls Árnasonar vegna þess að ég hélt að við værum önnum kafin við að ræða frumvarpið sem liggur fyrir og stöðuna sem upp kemur þegar lögum um Seðlabanka Íslands er breytt. Ekki var mikið fyrir því haft af hálfu hv. þingmanns að ræða efni frumvarpsins en ég á þó von á því að það komi væntanlega fram á næstunni hvaða skoðun hann hefur á einstökum þáttum frumvarpsins og hvernig best er að haga lagasetningu um þá mikilvægu stofnun sem Seðlabanki Íslands er.

Í þessu mikla frumvarpi er nefnilega um að ræða grundvallarbreytingu á uppbyggingu Seðlabanka Íslands. Í grundvallaratriðum er verið að breyta því hvernig ákvarðanir eru teknar í bankanum og breytingar af þessum toga þurfa mjög nákvæma skoðun. Jafnvel þótt við séum í ákveðnu tímahraki við þessar aðstæður verðum við samt að gæta að því að við erum að breyta grundvallarstofnun í landinu sem gegnir mikilvægu hlutverki í efnahagsstjórnun þjóðarinnar og það verður að gerast af ákveðinni yfirvegun.

Hér er farin nokkuð önnur leið en þegar lögum um seðlabanka hefur áður verið breytt, en frá því bankinn var settur á laggirnar árið 1961 hefur aldrei gerst að lögum um Seðlabanka Íslands væri breytt án þess að atbeini allra flokka kæmi þar að og að baki lægi álit og vinna sérfræðinga og færustu manna á sviði starfsemi bankans.

Ég sakna þess að sú leið var ekki farin nú. Ég sakna þess að í almennum athugasemdum í frumvarpinu sé ekki yfirlit yfir þá hugsun sem menn ætla að ná fram með breytingunum. Ég sakna þess að ekki er um neinn samanburð að ræða við banka í öðrum löndum. Ég sakna þess að menn geri grein fyrir þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar á vettvangi Seðlabanka Íslands á undanförnum áratugum og af hverju fallið var frá vissum hlutum og aðrir teknir upp í staðinn. Hér er t.d. sú leið farin að taka aftur upp að auglýsa stöðu bankastjóra sem fallið var frá árið 2001 af einhverjum ástæðum sem ég átta mig ekki almennilega á. En þá virtist samdóma álit manna hafa verið að auglýsingar hafi ekki þjónað hlutverki sínu. Nú er sú leið tekin upp aftur. Fróðlegt væri að vita betur hvernig rökstuðningurinn er þannig að við getum betur gert okkur grein fyrir faglega tilganginum með breytingum á lögum um seðlabanka.

En að því sögðu á ég von á því að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem ég held að sé í forsvari fyrir efnahags- og skattanefnd, (Gripið fram í.) eða verði það væntanlega, muni gera það sem hann boðaði í ræðu áðan og taka málið til mjög gaumgæfilegrar skoðunar í nefndinni og gera þær breytingar sem menn komast síðan að samkomulagi um að séu til bóta fyrir frumvarpið.

Ég varð svolítið undrandi á því hversu fljótur hann var að hafna þeirri hugmynd sem hafði verið til umræðu í vetur að taka hina eftirlitsstofnunina, Fjármálaeftirlitið, með í þessa athugun. Ég vissi svo sem fyrir að hann teldi bæði kosti og galla á því að hafa Fjármálaeftirlitið undir Seðlabankanum en mér fannst hann fullfljótur núna að slá það út af borðinu. Ég get t.d. ekki sagt fyrir um það hvort það sé endilega svo slæmt og mér skilst að ef bankaeftirlit er innan raða Seðlabankans hafi hann að ákveðnu leyti betri aðgang að þeim bönkum sem hann á að hafa virkt eftirlit með. Þetta eru faglegir þættir sem ég viðurkenni að ég hef ekki fullkomið vit á en til eru aðrir, hagfræðingar og sérfræðingar, sem þekkja þetta betur.

Það gleður mig sérstaklega að sjá hæstv. viðskiptaráðherra ganga í salinn. Það er mjög áhugavert og nauðsynlegt fyrir hann að hlusta á þessar merku umræður sem eiga sér stað um skipulag Seðlabanka Íslands.

Að þessu sögðu langar mig að fara í nokkur atriði í frumvarpinu sjálfu og velta fyrir mér og spyrja nokkurra spurninga og ég vona að hæstv. forsætisráðherra geti svarað einhverjum þeirra í lokaræðu sinni.

Í 3. gr. kemur fram að forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra til sjö ára og hann skuli hafa meistaragráðu í hagfræði. Mér finnst svolítið þröngt að nefna eina fræðigrein sérstaklega. Ég hygg að menn geti á öðrum fræðasviðum haft umfangsmikla þekkingu á sviði efnahagsmála. Ég get nefnt t.d. verkfræði, sérstaklega hagræna verkfræði, og fleiri greinar þar sem slíkir þættir geta skipt verulegu máli. Menn kunna einnig að hafa meistaragráðu í hagfræði án þess að hafa sinnt henni að neinu marki í marga áratugi. Þannig að þá spyr maður sig að því hversu miklu máli prófið skiptir. Hitt er annað mál að menn verða alltaf að gæta þess að þeir sem stýra Seðlabankanum hafi umfangsmikla þekkingu á sviði efnahagsmála. Frá því eigum við aldrei að líta.

Það kemur fram að seðlabankastjóri sé einn, en ekkert er sagt um hver eigi að vera staðgengill hans. Ég hefði viljað að hæstv. forsætisráðherra svaraði mér um það af hverju menn hafa ekki tilgreint í frumvarpinu hver eigi að vera staðgengill seðlabankastjóra. Í þeim löndum þar sem seðlabankastjóri er einn er eftir því sem mér skilst yfirleitt gert ráð fyrir því að einhver ákveðinn maður sé staðgengill hans. Hér kemur fram að ef seðlabankastjórinn forfallast geti forsætisráðherra sett annan tímabundið í hans stað. Svo er það líka í núgildandi lögum þar sem seðlabankastjórarnir eru þrír. Þar er hins vegar gert ráð fyrir því að einn af þremur seðlabankastjórum sé jafnframt staðgengill formanns bankastjórnar.

Ég tel að skilningurinn sé sá að forsætisráðherra setji ekki annan tímabundið í stað sitjandi bankastjórnarformanns nema um langvarandi forföll sé að ræða. Ég hallast þá að því að túlka 3. gr. þannig að forsætisráðherra mundi ekki grípa fram fyrir hendurnar á sitjandi bankastjóra nema hann fari frá til lengri tíma. En vegna starfa sinna er bankastjóri gjarnan eitthvað í burtu og þess vegna hefði ég haldið að til bóta væri að gengið yrði frá því strax hver eigi að vera staðgengill hans.

Hitt atriðið sem ég hefði viljað ræða við hæstv. forsætisráðherra og fá svör við og velti líka fyrir mér í tengslum við vinnuna sem fer fram í nefndinni. Það er peningastefnunefndin — mér finnst þetta orð dálítill tungubrjótur. Ég verð að segja það. Ég á erfitt með muna það. Peningastefnunefnd heitir hún.

Ég hefði viljað að menn íhuguðu aðeins betur í hverju þessi peningastefnunefnd felst. Nú er það þekkt víða um lönd að svona peningastefnunefnd starfi og það hefur á mörgum stöðum gefist afar vel. En ég hefði viljað sjá meiri upplýsingar í greinargerð um hvernig menn vilji sjá peningamálastefnunefndina og þá sem þar eiga að vera. Hvaða menn eiga að vera í þessari peningamálastefnunefnd? Þeir eiga náttúrlega að vera sérfræðingar á sviði efnahagsmála. Eiga þessir menn að geta sinnt þessu í fullu starfi? Gert er ráð fyrir því að í nefndinni séu bankastjórinn og tveir yfirmenn í bankanum. Ég hefði viljað að nákvæmlega kæmi fram hvaða yfirmenn þetta væru og þá hefði maður haldið að annars vegar væri staðgengill bankastjóra og svo kannski aðalhagfræðingur bankans eða eitthvað slíkt. Mér hefði fundist miklu betri bragur á því að klárt væri hvaða menn þetta eiga að vera.

Svo kemur atriði sem ég staldra svolítið við. Það eru þeir tveir sem koma til viðbótar og bankastjórinn á að velja. Ég geld varhuga við því. Ég hefði haldið að tilgangur þeirra tveggja sem koma utan raða bankans væri ekki síst sá að breikka sviðið sem peningastefnunefndin starfar á. Þeir gætu þá verið gagnrýnir og komið með ábendingar og verið framarlega á sínu sviði. Þá hefði maður haldið að einhver annar en bankastjórinn ætti að ákveða hverjir það væru. Ætti t.d. að auglýsa eftir þeim mönnum? Við gætum þess vegna gert það, hér heima, erlendis eða hvernig sem er. Eigum við bara að sjá hverjir það eru sem gætu verið tækir til slíks? Eigum við að velta því fyrir okkur hvort það sé leið?

Er ætlast til þess að þessir menn hafi rúman tíma? Er heppilegt að þeir séu í fullu starfi annars staðar? Er ekki betra að þetta séu menn sem hafa tækifæri til að helga sig þessum störfum? Hafa menn gert sér einhverja grein fyrir því hvert hlutverk slíkra starfa geti orðið? Hver er meiningin með þessu? Ég hefði viljað fá þetta miklu skýrar fram. Ef við viljum fá peningamálastefnunefnd sem á að skipta verulegu máli fyrir peningastefnuna í landinu væri mjög gott að við fengjum hina færustu menn sem hefðu tíma og möguleika til að setja sig verulega inn í málin. Ég hefði viljað að þar væri meira kjöt á beinunum í greinargerðinni. Ég vonast til þess að hæstv. forsætisráðherra geti aðstoðað mig eitthvað við að átta mig á því hvernig þetta er hugsað.

Svo veltir maður líka fyrir sér hversu gagnsæ vinnan hjá peningamálastefnunefndinni á að vera. Hversu miklar upplýsingar menn eiga að fá frá nefndinni í störfum hennar? Þarf að gera sérstaka grein fyrir starfi nefndarinnar? Eiga fundir hennar að vera bókaðir með þeim hætti að hægt sé að skýra frá þeim opinberlega? Eða telja menn að betra sé að hafa starfið lokaðra? Allt þetta finnst mér þurfa að skýra miklu betur vegna þess að ég get ekki betur séð en að peningastefnunefndin muni taka allar stórar ákvarðanir af hálfu bankans sem varða peningastefnuna og vinna að uppbyggingu og vera verulega mikilvægur hlekkur í uppbyggingu bankans. Þess vegna spyr maður sig að því hvort ekki þyrfti að ramma þennan þátt eitthvað betur inn.

Ég velti því töluvert fyrir mér hvort æskilegt væri að heimild væri til auglýsingar þegar horft er til þessara tveggja sem til viðbótar koma. Ég hefði líka haldið að heppilegt væri að þetta væru sérfræðingar eða prófessorar í háskólanum eða eitthvað slíkt án þess að hægt sé að tilkynna það svona. En maður hefði haldið að það mundi kannski hjálpa til við að auka tiltrú á því að alltaf sé verið að leita að bestu leiðunum hvað varðar peningastefnuna í landinu.

Ýmis atriði koma upp í hugann við lestur frumvarpsins og kannski fyrst og fremst að mér finnst rauði þráðurinn vera sá, herra forseti, að meiri upplýsingar vantar um hvert menn halda í þessu. Ég held að við verðum einhvern veginn að koma þessu þannig fyrir að þær ákvarðanir sem við tökum um uppbyggingu Seðlabankans séu þannig að við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því hver tilgangurinn með þessu öllu saman er. Ég verð að segja að ég átta mig ekki almennilega á því hvernig þetta lítur út þegar breytingar af þessum toga hafa verið gerðar.

T.d. er gert ráð fyrir að þessi peningamálastefnunefnd eigi að halda fundi átta sinnum á ári. Þetta er ekki þægilegt orð. Ég legg til að hæstv. forsætisráðherra finni eitthvað betra orð heldur en peningamálastefnunefnd, sem þvælist svoleiðis í munninum á mér að ég er komin í stórvandræði.

Gott væri ef forsætisráðherra getur varpað ljósi á þetta. En að öðru leyti hefði ég viljað sjá miklu ítarlegri greinargerð. Ég vil endilega að forsætisráðherra upplýsi hverjir hafa komið að samningu frumvarpsins og hvort til þess voru bara fengnir lögfræðingar eða líka sérfræðingar á sviði efnahagsmála, hagfræðingar og fleiri. Vegna þess að það skal vanda sem lengi skal standa. Um það hljótum við hæstv. forsætisráðherra að vera sammála.