136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:43]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nýta þetta andsvarsform til að taka undir með hv. þm. Ólöfu Nordal varðandi hæfniskröfurnar í frumvarpinu. Samkvæmt núgildandi lögum skipar hæstv. forsætisráðherra formann bankastjórnar Seðlabankans og aðra bankastjóra til sjö ára í senn. Ekki er skylt að auglýsa þessi embætti laus til umsóknar. Þarna eru ekki neinar hæfniskröfur, engar og það þarf ekki að auglýsa. Þannig er þetta í dag.

Framsóknarmenn hafa flutt hér mál. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er 1. flutningsmaður þess máls. Í því máli segir að það eigi að auglýsa. Þar er kveðið á um að bankastjórar skuli hafa háskólamenntun, reynslu og þekkingu í peningamálum og öðrum efnahagsmálum. Þar eru gerðar kröfur. En í frumvarpinu sem við erum að fjalla um hér er gerð sú krafa að auglýsa. Það er jákvætt. En síðan segir, með leyfi forseta:

„Seðlabankastjóri skal hafa lokið meistaraprófi í hagfræði og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum.“

Það er því algerlega einskorðað við það að hann skuli hafa meistarapróf í hagfræði. Þetta finnst mér fullskraddarasaumað, fullþröngt varðandi hæfniskröfur. (PHB: Skraddarasaumað á hvern?) Já, ég einmitt spyr. Af hverju er þetta svona skraddarasaumað. (PHB: Á hvern?) Það er góð spurning. Ég tel að þetta sé of þröngt og vil benda á að engin löggjöf um seðlabanka í hinum vestræna heimi er svona þröng. Þar segir hvergi að seðlabankastjóri skuli vera hagfræðingur. Það er aðeins kveðið á um aðra hluti. Því spyr ég og það er ágætt ef hæstv. forsætisráðherra gæti svarað því hér að lokum hvort það sé ekki nóg og hvort það sé ekki miklu eðlilegra og réttara að segja að Seðlabankastjóri skuli vera íslenskur ríkisborgari og búa yfir mikilli þekkingu eða reynslu í banka- og peningamálum. Það er svo sem hægt að bæta svo við að hann skuli hafa til dæmis lokið meistaraprófi í hagfræði eða hafa víðtæka reynslu af bankastarfsemi. Þetta (Forseti hringir.) er fullþröngt, virðulegur forseti, eins og ákvæðið hljóðar í frumvarpinu.