136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:48]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, frumvarp sem komið er fram vegna þess ástands sem ríkir í samfélaginu, frumvarp sem er tilraun til úrbóta. Það vekur furðu að frumvarpið tekur aðeins á V. kafla gildandi laga og þeim kafla er snýr að stjórnskipulagi bankans.

Það er alveg ljóst að að undanförnu hefur gagnrýni á Seðlabanka Íslands verið tvíþætt: Annars vegar hefur peningamálastefnan verið gagnrýnd, hún sögð rúin trausti innan lands sem utan og hins vegar að stjórn bankastjórnar Seðlabankans njóti hvorki trausts innan lands né utan. Þessi gagnrýni er væntanlega ástæða þess að hér liggur fyrir frumvarp til breytinga á lögum um Seðlabankann.

Ég get fyrir mitt leyti fallist á þá stjórnskipulagsbreytingu að seðlabankastjóri verði einn í stað þriggja, að það sé réttlætanleg breyting. Ég get hins vegar ekki fallist á þær þröngu skýringar sem gerðar eru til hæfniskrafna þess seðlabankastjóra sem kemur fram í 5. gr. Ég tel að hv. efnahags- og skattanefnd þurfi að fara ofan í saumana á þeim þætti.

Í 4. gr. er hins vegar grundvallarbreyting þar sem lagt er til að peningastefnunefnd verði sett á laggirnar. Þrátt fyrir það er engin tilraun gerð í frumvarpinu til þess að móta eða breyta þeirri peningastefnu sem fram kemur í lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Í ljósi þess ástands sem ríkir í samfélaginu, í ljósi bankahruns þriggja viðskiptabanka þá vekur það furðu, það vekur virkilega furðu að ekki skuli samhliða vera gerð tilraun í frumvarpinu til breytinga á peningastefnu Seðlabanka Íslands. Peningastefnu sem efnahagsstefna hverrar ríkisstjórnar leggur línur og ber því ábyrgð á sem og þá Alþingi Íslendinga sem samþykkir slíkt.

Það vekur furðu að III. kafli í þessum lögum skuli ekki endurskoðaður og ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvernig stendur á því í ljósi þeirrar stjórnskipulagsbreytingar sem verið er að gera á Seðlabankanum með peningastefnunefnd, að ekki sé gerð tilraun samhliða til breytinga á III. kafla? Í ljósi þess ástands sem ríkir í samfélaginu, í ljósi bankahrunsins, af hverju eru greinar nr. 11, 12 og 13 í III. kafla um innlend viðskipti ekki endurskoðaðar? Ef breyta á grunnstefnu um það hvernig peningamálastefnan er mörkuð, af hverju er þessu ekki breytt? Ég tel að það veki furðu að 11., 12. og 13. gr. III. kafla séu ekki inni í þeirri breytingu sem hér á að gera.

Það vekur líka furðu í stjórnskipulagsbreytingu frumvarpsins að enn þá virðist eiga að skipa bankaráð Seðlabankans á sama hátt og fyrr. Þar er ekki nein breyting. Þar virðist enn þá eiga að vera pólitísk skipan eins og nú hefur verið. Í það minnsta er ekki tekið á því í frumvarpinu að nokkurra annarra hæfniskrafna verði krafist en flokkspólitísks skírteinis í ráðningu bankaráðs. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Af hverju er ekki líka breyting í frumvarpinu á því með hvaða hætti kjósa á í bankaráð og þá að þau ríkulegu orð „fagleg hæfni“ ráði þar för eins og gera á hér í ráðningu seðlabankastjóra, miðað við 3. gr.?

Sérfræðingar innan lands og utan, hvort heldur eru úr atvinnulífi, vísindum eða fræðum innan fræðasamfélagsins eða bankakerfisins, hafa gagnrýnt Seðlabankann, peningamálastefnuna og yfirstjórn Seðlabankans. Þess vegna, enn og aftur, vekur það furðu að ný ríkisstjórn sem leggur fram frumvarp sem er tilraun til úrbóta, eftir því sem fram kom í ræðu hæstv. forsætisráðherra, skuli ekki undir nokkrum kringumstæðum taka á því máli sem hér hefur verið nefnt og er peningastefnan sjálf.

Það vekur líka furðu og mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra á sama hátt og hv. þm. Ólöf Nordal spurði: Hverjar eiga að vera hæfniskröfur þeirra aðila sem koma til með að sitja í peningastefnunefnd? Eða verður það sérval, að seðlabankastjóri, ráðinn samkvæmt 3. gr., komi til með að ráða því hverjir sitji í þeirri nefnd? Í frumvarpinu er hvergi nefnt eitt einasta orð um hæfni þeirra sem þar eiga að sitja.

Í 4. gr. er hins vegar gerð grein fyrir að meiri hlutinn muni ráða för. Það er ekki endilega gefið að þeir aðilar sem hér eru tilnefndir og sitja og starfa í Seðlabankanum, sem eru tveir af yfirmönnum bankans á sviði mótunar- og framkvæmdastefnu í peningamálum, séu endilega alltaf sammála sjálfum seðlabankastjóranum. Það gæti verið að þar væri einhver ágreiningur hugsanlegur og er það þá hugsanlegt að seðlabankastjóri yrði undir í atkvæðagreiðslu í peningastefnunefnd sem hæstv. forsætisráðherra boðar í 4. gr.?

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi er gerð tilraun til breytinga á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands, í fyrsta lagi með því að seðlabankastjóri verði einn. Kröfur sem eru gerðar til hans eru að mínu mati allt of þröngar og það verður að opna þá grein mun meir en hér er gert. Í 4. gr. er talað um peningamálastefnuna. Ég get fyrir mitt leyti, hæstv. forseti, fallist á að hér verði einn seðlabankastjóri eins og tíðkast í æðimörgum löndum í kringum okkur. Fyrir fram segi ég ekki nei við slíku.

En ég tel að vanda hefði mátt betur til þessa frumvarps. Það hefði þurft að taka á fleiri þáttum og í mínum huga er þetta frekar fljótfærnisleg leið til þess að koma til móts við það sem sumir hafa kallað raddir fólksins. Það hefði þurft að vanda betur til verka og taka á fleiri þáttum þegar grunnbreytingar eru gerðar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands.