136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég var búinn að biðja um það að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er nú í hvíld frá því að vera formaður BSRB, væri viðstaddur þessa umræðu en ég sé að hann er ekki kominn. Forseti ætti að hvetja hann til að koma.

(Forseti (EMS): Forseti vill taka fram vegna orða hv. þingmanns að miðað við upplýsingar forseta er hæstv. heilbrigðisráðherra í húsi og er væntanlega að fylgjast með ræðu hv. þingmanns eða væntanlegur í sal.)

Ég ætla að byrja á því, af því að við ræðum núna um starfsmenn Seðlabankans, að þakka starfsmönnum Seðlabankans fyrir mjög gott starf í krísunni í haust. Ég kynntist því í hv. efnahags- og skattanefnd þar sem ég fékk til fundar við nefndina aðila vinnumarkaðarins og fleiri þegar ástandið var sem verst og við vorum í viðskiptastríði við Bretland, Holland og allt Evrópusambandið, að starfsmenn Seðlabankans gerðu, að ég held, nánast kraftaverk. Ég vil þakka þeim fyrir það.

Við ræðum frumvarpið frá hæstv. forsætisráðherra og mig langar til að spyrja hana fyrst hvort það komi til greina að sú nefnd sem fær þetta til skoðunar, efnahags- og skattanefnd, megi gera á þessu veigamiklar breytingar. Ég tel að það sé ansi brýnt. Þetta frumvarp ber með sér að það er samið á mjög stuttum tíma. Ég mundi nánast segja að það sé hroðvirknislega unnið. Það er enginn höfundur að þessu frumvarpi, ekki getið um neinn, það fæst ekki uppgefið. Það er ekki orð um Fjármálaeftirlitið í því og það er ekki orð um umheiminn, hvernig þetta sé í öðrum löndum o.s.frv. Maður vill að sjálfsögðu fá að vita ef maður á að fjalla um svona mál eins og þetta hvernig farið er með sambærileg mál í Evrópusambandinu, fá að vita eitthvað meira.

Hæstv. heilbrigðisráðherra er nú kominn og ég óska honum til hamingju með að vera kominn með nýtt valdasæti og hafa stigið niður af öðrum valdastóli sínum sem formaður BSRB. Hann ætlar reyndar ekki að stíga þar varanlega úr sæti heldur bara tímabundið. Mig langar til að spyrja hann um þetta makalausa bréf sem hæstv. forsætisráðherra sendi opinberum starfsmönnum.

Ég hef margoft gagnrýnt seðlabankalögin og ég hef margoft farið fram á breytingar á áminningarskyldu o.s.frv. þannig að ég er ekki að verja þetta kerfi, alls ekki. En það kemur dálítið ankannalega út þegar bankastjórn Seðlabankans fer allt í einu að njóta harðrar baráttu hæstv. ráðherra um árabil fyrir að viðhalda þessari áminningarskyldu o.s.frv. Hér er nefnilega bréf frá einum ráðherra í ríkisstjórn og meira að segja forsætisráðherra til opinberra starfsmanna þar sem hótað er með lagasetningu ef þeir ekki segi upp, það er sagt þannig hreint út.

Ég hygg að þetta bréf sé algert einsdæmi og það eru engar ástæður nefndar, engar ávirðingar, ekkert eins og í venjulegri áminningu heldur bara sagt: Við ætlum að flytja frumvarp sem gerir ykkur atvinnulausa ef þið viljið ekki segja upp. Þetta gefur það fordæmi að t.d. menntamálaráðherra sem er illa við einhvern mann, t.d. einhvern skólastjóra af því að hann er á annarri skoðun eða hefur sagt eitthvað ljótt um ráðherra eða eitthvað slíkt, tilkynni skólastjóranum með bréfi eftirfarandi: Ég ætla að flytja frumvarp sem breytir yfirstjórn skólans þíns og þú munt missa vinnuna. Viltu ekki segja upp? Hvað segir fyrrv. formaður BSRB, hæstv. heilbrigðisráðherra um þetta og réttarstöðuna? Það geta allir opinberir starfsmenn farið að skjálfa á beinunum. Er þetta til að auka agann í kerfinu? Hlýðið þið, elskurnar mínar, annars setjum við lög. Þetta er mjög merkilegt bréf og allt öðruvísi en ef mönnum er tilkynnt um að það eigi að flytja frumvarp og þeir verði látnir vita af því og það kunni að vera að þeir missi vinnuna en þar er ekki sagt: Viljið þið ekki segja upp?

Í frumvarpi því sem við ræðum hérna er verið að bregðast við ákveðnum vanda. Allt fjármálakerfið hrundi og það er eitthvað mikið að. Það er eitthvað mikið að lagasetningunni. Það er eitthvað mikið að störfum Alþingis o.s.frv. og það er eitthvað mikið að eftirlitsstofnunum. Það er ekki spurning, það efast enginn um það og menn hafa verið að vinna í því núna að gera á þessu breytingar. Það er komin fram hugmynd frá síðustu ríkisstjórn um að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann til að reyna að finna einhverja lausn sem gefur meiri samskipti milli þessara stofnana. Það kom t.d. fram að hæstv. fyrrv. viðskiptaráðherra hafði ekki samband við Seðlabankann í heilt ár, það var algert sambandsleysi. Hann hefur verið búinn að týna gemsanum sínum eða tölvunni sinni eða einhverju svoleiðis, ég veit ekki hverju. Það er greinilegt að það þarf að örva miklu meira samskiptin á milli aðila til að ráða sameiginlega við þetta vandamál. Þetta er okkar vandamál á Alþingi. Þess vegna vildum við setja um þetta lög, einhvern ramma.

Samkvæmt 35. gr. skal Seðlabankinn veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar og hann á að gera samning við Fjármálaeftirlitið um upplýsingaskipti þannig að gert er ráð fyrir því í lögum að þarna séu ákveðin samskipti. Fyrrverandi ríkisstjórn réð finnskan sérfræðing til að móta tillögur um þetta mál um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Ég tel að það sé hugsanlega nauðsynlegt. En það er alveg nauðsynlegt að breyta einhverju. Það er alveg á hreinu.

Seðlabankinn á mann í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Það er líka eitt atriði sem sýnir tengslin. Honum var reyndar sagt að segja upp af öðrum hæstv. ráðherra í fyrrverandi ríkisstjórn sem er líka dálítið merkilegt af því að Fjármálaeftirlitið á líka að vera óháð stofnun. Það er ekki orð um þetta í frumvarpinu, um erlenda reynslu eða fyrirmyndir eða eitthvað um útlönd. Ég held að það sé mjög brýnt að hv. nefnd sem fær málið til umsagnar skoði hvernig menn gera þetta í útlöndum. Hvernig er þetta gert, hvernig er þetta leyst? Það er mikill vandi. Vandinn er þessi: Við erum með ákveðna eftirlitsstofnun og þegar forstöðumaður eða sá sem þar er inni bregst, hvað getum við þá gert? Ef eftirlitsstofnunin á að vera óháð stjórnvaldinu getur stjórnvaldið ekki gripið inn í og sagt honum upp.

Hvað gerist ef viðkomandi aðili sér ekki að sér og viðurkennir ekki að hann hafi gert nein mistök, hvað þá? Þetta er ákveðinn vandi sem við þurfum að leysa. Við höfum t.d. séð að bankastjórnin hefur gert hluti sem menn hafa verið mjög gagnrýnir á, þar á meðal ég. Allt í einu er gengið sett fast á 175, bara einhverja tölu. Svo er tilkynnt um eitthvert rússneskt lán allt í einu og samskipti við Glitni voru svona og svona, kannski gagnrýnisverð. Svo féllu ummæli í sjónvarpsþáttum og fleira sem gera það að verkum að menn hafa verið mjög gagnrýnir á störf bankastjórnar Seðlabankans. Þá er það spurningin: Hvernig getur maður brugðist við? Ég held að það sé okkar verkefni á Alþingi að finna lausn á því hvernig menn geta brugðist við.

Það frumvarp sem við nú ræðum gengur enn lengra. Það er einn pólitískt ráðinn bankastjóri sem hefur með sér ráð, peningastefnunefnd, sem líka gæti verið pólitískt ráðin því að bankastjórinn er pólitískt ráðinn sem hagfræðingur og þeir eru oft mjög pólitískir eins og við sjáum. Hér er einn hæstv. ráðherra hagfræðingur þannig að margir hagfræðingar hafa mjög sterkar pólitískar skoðanir. Það er þannig, það fylgir faginu. (Gripið fram í: En stærðfræðingar?) Ekki stærðfræðingar, þeir eru minna pólitískir. Bara einn og einn. En þetta er sem sagt vandinn. Hvað gerum við þegar menn bregðast í trúnaði eða talið er almennt að menn hafi brugðist því og halda samt sjálfstæðinu. Þetta er vandi sem við þurfum að leysa.

Ég hef verið mjög gagnrýninn á peningamálastefnu Seðlabankans í gegnum tíðina. Efnahags- og skattanefnd fór í heimsókn til Seðlabankans til að ræða um jöklabréfin fyrir þremur árum vegna þess að við sáum að þau hrönnuðust upp og voru eins konar peningamaskína sem bjó til kaupmátt á Íslandi. Það er búin að vera heilmikil gagnrýni á þessa peningamálastefnu í gegnum tíðina. Hún bítur ekki vegna þess að það vantar inn hana t.d. verðtryggða vexti. Seðlabankinn hefði átt að hafa verðtryggða stýrivexti líka því að það eru tvær myntir í landinu, annars vegar króna og hins vegar verðtryggð króna. Þetta eru tvær óháðar myntir. Það er reyndar spurning hvort verðtryggða krónan fái yfirleitt staðist. Þetta heldur allt saman óbreytt áfram í þessu hroðvirknislega unna frumvarpi. Það er engin breyting á þessu sem er meginástæðan fyrir jöklabréfavandanum og verður að breyta að mínu mati. Það verður að breyta því.

Hér hefur nokkuð verið rætt um þær menntakröfur sem gerðar eru. Ég gef ekki mikið fyrir menntakröfur í prófi sem menn tóku fyrir 30 árum hafi þeir ekki gert neitt til að halda menntuninni við. Ég legg eiginlega meira upp úr reynslu manna og að menn hafi stundað akademískt nám yfirleitt því að það skiptir ekki voðalegu stóru máli í akademíunni hvort menn eru í verkfræði, stærðfræði eða viðskiptafræði. Menn eiga að hafa sýnt að þeir kunna að glíma við abstraktvandamál. Ég mundi vilja að hv. nefnd breytti þessum menntakröfum eitthvað.

Ég vil benda á að ég fyrir nokkrum árum sótti um að verða seðlabankastjóri í tvígang og varð einu sinni undir fyrir mjög menntuðum manni, Steingrími Hermannssyni, sem var stjórnmálamaður á sínum tíma. Þá var ég ekki kominn í pólitík. Svo sótti ég líka um og laut í lægra haldi gegn Jóni Sigurðssyni sem var þá í Alþýðuflokknum. Ég held að hann hafi ansi góða menntun í starfið. En ég fékk í hvorugt skipti starfið og hér stend ég.

Ég hef bent á það að þessi stjórn verður pólitískt ráðin og það sem verra er, tveir í þessari peningastefnunefnd heyra undir formanninn þannig að hann ræður með húsbóndavaldi yfir þeim. Svo eru tveir sem hann velur úti í bæ án þess að nokkuð sé talað um kröfur til hæfni þeirra. Þeir þurfa ekki að hafa neina menntun í þessari peningastefnunefnd.

Ég er búinn að ræða um þetta makalausa bréf og hlakka til að heyra í fyrrverandi formanni BSRB, sem núna er í hvíld sem formaður, hvernig hann metur það ef opinberir starfsmenn geta vænst þess að fá svona bréf í framtíðinni og hvort þetta muni ekki auka agann í kerfinu, herra forseti.