136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands og mér er ljúft að koma til þessarar umræðu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal óskaði reyndar eftir fyrr í dag.

Samkvæmt frumvarpinu eru gerðar tillögur um breytingu á stjórnsýslu Seðlabankans en ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er sitthvað í seðlabankalögunum sem við þurfum enn að huga að. Ég minnist þess að þegar núverandi lagabálkur var settur var ég með ákveðnar efasemdir um að menn væru að gera að öllu leyti rétt þegar stjórntæki Seðlabankans væru rýrð að því marki sem þá var gert. Ég hafði um það talsverðar efasemdir og menn geta skoðað það í ræðum sem þá voru fluttar. Ég hygg að sitthvað í þeim varnaðarorðum viðurkennum við nú að eigi við rök að styðjast. (PHB: Yfirleitt.) Þannig að ég tek undir með hv. þingmanni að það er frekara verk að vinna hvað þetta snertir.

Hér erum við fyrst og fremst að gera breytingar á stjórnsýslu Seðlabankans sem hefur það í för með sér að bankastjórum bankans er fækkað og önnur atriði koma einnig til sögunnar sem hér hafa verið gerð að umræðuefni.

Ég vil sérstaklega taka upp það atriði sem hv. Pétur H. Blöndal nefndi og varðar réttarstöðu þeirra sem nú gegna embættum bankastjóra Seðlabankans. Hann spyr hver mín viðhorf séu sem formanns BSRB, að vísu í hvíld, en hvort þetta sé í samræmi við þær áherslur sem ég hafi haft uppi á þeim vettvangi. Já, þetta er fullkomlega í samræmi við þær áherslur. Hverjar eru þær? Allar götur frá því að ég fór að hafa afskipti af verkalýðsmálum fyrir um þremur áratugum hefur mér fundist það vera mikilvægt keppikefli að styrkja réttarstöðu þeirra sem ekki hafa völd eða fjármagn á hendi gagnvart þeim sem hafa hvoru tveggja á hendi, völdin og fjármunina. Það er að vissulega erfitt að alhæfa um alla launamenn hvað þetta snertir. Sumir eru á lágum launum, hafa lítil sem engin áhrif, aðrir launamenn búa við bærileg kjör og hafa mikil áhrif sem við getum ekki alhæft um hvað þetta snertir. En hitt get ég staðhæft við hv. þm. Pétur H. Blöndal að ég geri engan greinarmun á skúringar- og kaffikonunni annars vegar og seðlabankastjóra hins vegar hvað samninga áhrærir. Það á að sjálfsögðu að standa við samninga, það á að standa við lög en það er ekkert í lögum sem bannar að menn leiti eftir samningum við launafólk og það er verið að gera þessa dagana í mjög ríkum mæli. Verið er að segja upp ráðningarkjörum um kerfið allt. Það er verið að umbylta starfsemi hjá hinu opinbera, það er verið að leggja niður stöður í stórum stíl. Ég er að upplifa þetta á eigin skinni innan heilbrigðisþjónustunnar hvern einasta dag án þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal kveðji sér sérstaklega hljóðs á Alþingi til að fjalla um þau mál.

Þegar breytingar eru gerðar á yfirstjórn Seðlabankans sem hefur það í för með sér að seðlabankastjórum er fækkað úr þremur í einn gefur auga leið að það þarf að leggja stöðurnar niður, það er verið að breyta stjórnsýslunni. Þá er úr vöndu að ráða vegna þess að þeir sem ráðnir voru til starfans eru lögum samkvæmt ráðnir til lengri tíma eða inn í framtíðina, eru ráðnir til 7 ára eins og gert er ráð fyrir í þessum lögum nú. Hvað skal þá gera? Á að bíða eftir lagabreytingunni þar til þessi tími er á enda runninn eða á að ganga til samninga við viðkomandi einstaklinga? Út á það gekk bréfið sem hæstv. forsætisráðherra ritaði seðlabankastjóra. Ég segi að ef samningar ekki nást verður að sjálfsögðu farið að settum reglum og samningum og málið fer inn í þann farveg sem réttarríki býður upp á. Það hefur aldrei annað komið til tals. Þetta er í þeim anda sem ég tel að eigi að standa að málum að sjálfsögðu gagnvart seðlabankastjóranum jafnt sem skúringa- og verksmiðjukonunni því að við gerum engan greinarmun á réttarstöðu þeirra tveggja hvað þetta snertir. Samningar skulu standa.

Ég held að það séu ekki margir menn sem hafa gagnrýnt Davíð Oddsson eins ákaft og sá sem hér stendur frá því að hann varð verkstjóri í Stjórnarráðinu árið 1991, (SKK: Forsætisráðherra heitir það.) þá hæstv. forsætisráðherra. Ég hef gagnrýnt þá stefnu sem hann hefur borið uppi. En ég held að ég geti fullyrt að hvað varðar hans störf í Seðlabankanum hafi ég ekki hnjóðað í hann með ómálefnalegum hætti. Ég vísa til þess að það gladdi mig að fá lesendabréfin á heimasíðu mína í gærkvöldi þar sem lesandi vakti sérstaklega máls á þessu. Það sem við erum að ræða um hérna er fullkomlega málefnaleg aðkoma að þessu máli. Ég biðst undan því að menn séu að reyna að færa það í einhvern annarlegan farveg. Af minni hálfu er það ekki hugsað sem slíkt. Og það er engin mótsögn fólgin í aðkomu minni að þessu máli hvað þennan einstakling snertir annars vegar og aðra einstaklinga sem ég hef haft skipti af hins vegar því að ég vil að sjálfsögðu að lög og reglur standi í hvívetna.