136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom ekkert inn á það sem ég spurði um, þ.e. þetta makalausa bréf. Ég skil alveg, og það kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið, að ef stöðunum er breytt, ef Alþingi skyldi samþykkja frumvarp sem breytir stöðunum, þá fá seðlabankastjórarnir biðlaunarétt í samræmi við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það liggur fyrir. En það er þetta bréf.

Getur verið að bréfið breyti réttarstöðu seðlabankastjóra? Þetta er í rauninni uppsögn frá æðsta yfirmanni framkvæmdarvaldsins sem segir við þessa menn: Stjórnin hyggst flytja frumvarp, það er ekki búið að samþykkja það. Við förum fram á að þið segið upp. Með hótun, herra forseti. Getur verið að þá gildi ekki lengur lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, biðlaunarétturinn? Þeim er sagt upp og getur þá verið að þeir eigi laun í 7 ár eða það sem eftir er af þeim tíma vegna þess að þeim er sagt upp án þess að hafa fengið áminningu, engin ástæða er nefnd í bréfinu og engar ávirðingar. Það er bara sagt almennt að traust manna á fjármálakerfi Íslendinga hafi beðið gífurlegan hnekki. Og hvað svo?

Getur verið að þetta bréf — ég legg mikla áherslu á að það er mjög merkilegt, það er einsdæmi. Þar sendir framkvæmdarvaldið opinberum starfsmanni uppsögn og bara segir: Þú segir upp. Það er spurning hvort verja þurfi hinn almenna opinbera starfsmann fyrir slíkum gerræðislegum bréfum frá framkvæmdarvaldinu.