136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi greinarmuninn á fólki. Það er alveg rétt, ég geri ekki greinarmun á fólki þegar mannréttindi eru annars vegar og réttarstaða fólks. Ég minnti hins vegar á það í ræðu minni að löggjöf um slík efni verður til til varnar fólki sem hefur lítil völd og litla fjármuni á hendi og það sé ekki hægt að alhæfa um stöðu fólks hvað þetta snertir. Við erum hins vegar að tala núna um þá sem tróna efst í launum og völdum og áhrifum en hvað varðar réttarstöðu þeirra geri ég ekki greinarmun. Auðvitað á að virða réttarstöðu þeirra.

Varðandi gagnsæið og vinnubrögðin og hverjir hafi komið að þessu máli. Sannast sagna finnst mér þetta frumvarp vera mjög einfalt. Ég veit ekki hvort Sjálfstæðisflokknum þykir þetta vera óskaplega flókin lagasmíð. Mér finnst hún ekkert vera mjög flókin. Þetta er sáraeinfalt frumvarp. Ég eiginlega skil ekki hvað það er sem vakir fyrir mönnum að vilja fá upplýsingar um þetta efni. Ég þekki það ekki sjálfur. Ég veit ekki hvaða sérfræðingar komu að samningu frumvarpsins eða þingmálsins en ég skil ekki alveg hvaða máli það skiptir. Eða vilja menn persónugera þetta mál? (PHB: Fagleg vinnubrögð.) Af hverju getum við ekki rætt málefnalega um efni frumvarpsins og hversu heppilegt er að breyta stjórnsýslu Seðlabankans á þann veg sem frumvarpið gerir ráð fyrir? Hvers vegna ræðum við það ekki í stað þess að eltast við hver hafi sett niður punkt hér og kommu þar?

Ef um væri að ræða einhverja mjög flókna lagasmíð og það hefði einhverjar málefnalegar forsendur að spyrja um hitt, þá skildi ég það. En má ég bara forvitnast um það hvað það er sem vakir fyrir hv. þingmanni þegar honum finnst þetta skipta höfuðmáli varðandi frumvarpið en ekki sjálft efnisinntak þingmálsins?