136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:31]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra þessarar spurningar vegna þess að ég treysti því að í honum sé heiðarleg taug. Mín samskipti við hæstv. ráðherra hafa verið þess eðlis að ég hef trú á því að hann sé heiðarlegur. Það skiptir auðvitað máli fyrir okkur að fá að vita hvaða sérfræðingar komu að samningu þessa frumvarps vegna þess að eftir þessa umræðu fer það til meðferðar í þingnefnd. Það er afar mikilvægt fyrir þingmenn á Alþingi að fá að eiga orðastað við þá sem sömdu frumvarpið. (ÁI: Setja þá út af sakramentinu.) Og ég skil ekki — ef ég get fengið að tala fyrir hv. þm. Álfheiði Ingadóttur — hvaða pukur og leynimakk er í kringum það að upplýsa alþingismenn um það til hvaða sérfræðinga ríkisstjórnin leitaði við samningu þessa frumvarps.

Ég spyr: Eru það boðleg vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar að mati hæstv. heilbrigðisráðherra að leyna upplýsingum (Forseti hringir.) um svona sjálfsögð atriði gagnvart þingmönnum sem eiga að fara (Forseti hringir.) að vinna með málið og vilja fá þá sérfræðinga sem sömdu málið til að (Forseti hringir.) svara fyrir verkið? (Gripið fram í.)