136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óska hæstv. viðskiptaráðherra til hamingju með embættið og til hamingju með jómfrúrræðu sína hér í þinginu. Þetta var ágæt ræða, málefnaleg og má taka undir margt í henni. Hæstv. viðskiptaráðherra hefur reyndar í fyrri störfum sínum verið gagnrýninn á Seðlabankann fyrir ýmsa hluti og var það vissulega í þessari ræðu líka. Hann talaði mjög mikið um skipbrot peningastefnu og verðlagsmarkmið bankans og hvernig tækjum hans væri beitt.

Ég vil spyrja: Hefði hæstv. viðskiptaráðherra ekki talið að rétt væri að taka á þessum hlutum í þessu frumvarpi fyrst farin er sú leið að reyna að endurvekja traust á bankanum með því að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um bankana?

Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort honum er kunnugt um hvernig faglegum undirbúningi frumvarpsins var háttað, hvernig að því var staðið, hvaða greiningar lágu þar til grundvallar og hvaða mat á mismunandi leiðum (Forseti hringir.) lá því til grundvallar að þessi leið var farin.